Veiðar á úthafsrækju byggja á sóknarstýringu og hefur verið ákveðið að veiðarnar verði stöðvaðar eigi síðar en 1. júlí nk. Í frétt frá atvinnuvegaráðuneytinu segir að þessi ákvörðun sé tekin í ljósi þróunar veiða á yfirstandandi fiskveiðiári og til að tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika. Þá megi búast við að stjórn veiða á úthafsrækju komi til endurskoðunar fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs.
Eins og fram kom í nýjustu Fiskifréttum líður senn að því að 5.000 tonna hámarksaflanum sem Hafrannsóknastofnun hefur ráðlagt verði náð. Um miðja síðustu viku var búið að veiða tæp 4.200 tonn eða 83% af hámarkinu.
Í fréttinni frá atvinnuvegaráðuneytinu er rifjað upp að úthafsrækjuveiðar hafi verið gefnar frjálsar frá og með fiskveiðiárinu 2010/2011 á þeirri forsendu að ekki hafi verið aflað upp í útgefið aflamark á árunum þar á undan. Þá var einnig vísað til skýrslu starfshóps ráðuneytisins um veiðar á úthafsrækju frá 2010, þar sem léð var máls á því að tekin yrði upp sóknarstýring í stað aflamarksstýringar við stjórn veiða á stofninum, í því skyni að hvetja til betri nýtingar.
Við upphaf fiskveiðiáranna 2011/2012 og 2012/2013 var ákveðið að framlengja þessa ákvörðun, þ.e. veiðar á úthafsrækju hafa að meginreglu verið öllum frjálsar þó með hliðsjón af ráðgjöf.