Veiðistofnsvísitala úthafsrækju er svipuð og hún mældist síðastliðin tvö ár og því ljóst að stofninn er áfram í lægð miðað við síðasta áratug, að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnun.
Í fréttinni er bæði greint frá niðurstöðum úr rannsóknum á úthafsrækju fyrr í sumar og rannsóknum á innfjarðarrækju í haust.
Mestur þéttleiki rækju var á norðaustanverðu svæðinu. Þó þéttleikinn hafi ekki verið mikill þá var aukning austast á rannsóknasvæðinu, í Bakkaflóadjúpi og Héraðsdjúpi. Aldrei hefur fengist jafn lítið af rækju vestast á svæðinu.
Á öllum svæðum var vísitalan undir langtíma meðaltali. Minna var af smárækju en árið 2013, en magn hennar var þó meira en á tímabilinu frá 2008 til 2012. Líkt og undanfarin ár var rækjan smæst norðaustur og austur af landinu (309 stk/kg), en stærst í Norðurkantinum (171 stk/kg). Mikið var af þorski á rækjuslóðinni, en mest var af þorski austur og norðaustur af landinu. Magn grálúðu var lítið og hefur ekki mælst minna í úthafsrækjuleiðangri frá árinu 2005.
Rækja á grunnslóð
Á grunnslóð voru könnuð sex svæði: Arnarfjörður, Axarfjörður, Húnaflói, Ísafjarðardjúp, Skagafjörður og Skjálfandi. Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var undir meðallagi og var helsta útbreiðslusvæði rækju innst í firðinum. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að leyfðar verði veiðar á 250 tonnum af rækju fiskveiðiárið 2014/2015.
Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi mældist í meðallagi. Líkt og undanfarin ár var mest magn rækju innst í Djúpinu. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að leyfðar verði veiðar á 750 tonnum af rækju fiskveiðiárið 2014/2015. Rækjustofnar á öðrum svæðum eru enn í lægð og mælir Hafrannsóknastofnun ekki með veiðum á þeim svæðum. Almennt var minna af ýsu en á síðustu árum, en magn hennar hefur minnkað nánast stöðugt frá árinu 2005. Einnig var minna eða svipað magn af þorski og í rannsókninni 2013. Töluvert meira mældist af ýsuseiðum í leiðangrinum en undanfarin ár.