Samkvæmt reglugerð mega úthafskarfaveiðar íslenskra skipa hefjast á morgun en fyrr í dag var enginn íslenskur togari kominn á veiðisvæðið úti við 200 mílna lögsögumörkin á Reykjaneshryggnum. Þar voru þá 13 erlendir togarar að veiðum rétt utan lanhelgislínunnar en rússneskir togarar hafa stundað úthafskarfaveiðarnar frá því í byrjun apríl sl. Þetta kemur fram á vef HB Granda.

Úthafskarfakvótinn hefur verið skorinn hraustlega niður undanfarin ár og nú er svo komið að aðeins einn togari HB Granda, Þerney RE, mun stunda veiðarnar af hálfu fyrirtækisins nú í byrjun sumars. Þerney er nú í höfn í Reykjavík en áhöfnin var að ljúka veiðiferð í norsku lögsöguna í Barentshafi með veiðum í lokin á Íslandsmiðum út af Suðausturlandi.

Góð veiði í norsku lögsögunni

,,Það gekk allt að óskum. Veiðitímabilið á norska vertíðarsvæðinu við Lófót var lokið og við þurftum því að sækja þorskinn norður á Nordkap veiðisvæðið og þar norður af. Aflabrögðin voru góð og þorskurinn vænn og við vorum með rúmlega 700 tonn upp úr sjó eftir um þrjár vikur á veiðum,“ segir Ægir Franzson, skipstjóri á Þerney. Þar með lauk veiðum á þorskkvóta HB Granda í norsku landhelginni en eftir á að veiða kvóta ársins í rússnesku lögsögunni.

,,Yfirleitt eru maí og júní góðir í rússnesku landhelginni og þar er t.a.m. fínasta veiði núna. Það verður þó einhver bið á því að farið verði eftir rússneska kvótanum,“ segir Ægir.

Sem fyrr segir var Þerney að veiðum á heimamiðum í lok veiðiferðarinnar og segir Ægir að aflinn hafi verið um 200 tonn á þeirri viku sem skipið var á miðunum.

,,Við vorum mest í Berufjarðarálnum og aflinn var aðallega ufsi og  karfi. Við fengum einnig grálúðu en grálúðuveiðin var ekki mikil,“ segir Ægir Franzson.