Framlag útgerðarfyrirtækja til loðnurannsókna fyrir og eftir áramótin var 130 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Kunnara er en frá þurfi að segja að ekki fannst loðna í veiðanlegu magni og því loðnubrestur staðreynd.

Hafrannsóknastofnun, í samstarfi við útgerðir, lauk formlega loðnuleit sinni rétt undir mánaðarmótin febrúar-mars. Enn var þó leitað á vegum útgerðarfyrirtækjanna fyrstu daga marsmánaðar án árangurs. Þá höfðu skip Hafrannsóknastofnunar verið um 40 daga við leit en skip nokkurra útgerða samfleytt í tvo og hálfan mánuð í dögum talið – eða í 75 daga.

Kostnaðurinn sem útgerðir landsins öxluðu er því verulegur en skiptist á fyrirtækin í sama hlutfalli og veiðiheimildir þeirra standa í loðnu. Þá er ónefnt að norsk skip lituðust um á siglingu sinni við landið.

Árangursríkt samstarf

Samstarf Hafrannsóknastofnunar og útgerðanna í landinu er ekki nýtt af nálinni. Vertíðin árið 2017 er í fersku minni þegar útgerðirnar lögðu fram rúmlega 40 milljónir króna til leitar sem aftur skilaði kvóta að verðmæti 17 milljarðar króna, skrifaði Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, í grein í Fréttablaðinu þann vetur.

Loðnubresturinn er þungt högg fyrir mörg sveitarfélög, fjölskyldur sjómanna og fiskvinnslufólks og þjóðfélagið allt.

Útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljörðum króna í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs nam landsframleiðsla síðustu fjögurra ársfjórðunga 2.766 milljörðum króna. Er því um að ræða um 0,6% af landsframleiðslu sem þjóðarbúið varð af, miðað við þær forsendur.