Samgöngustofa hefur hafið útgáfu nýrra sjóferðabóka til íslenskra sjómanna, að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.

Sjóferðabækur gegna hlutverki skilríkis ásamt því að vera staðfesting á að viðkomandi sé sjómaður og með færslu í sjóferðabækur geta sjómenn haldið utanum siglingatíma sinn með áritun skipstjóra í sjóferðabókina hverju sinni. Um sjóferðabækur er fjallað í 6. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985. Skilyrði þess að fá útgefna sjóferðabók eru eftirfarandi:

  • að umsækjandi sé með íslenskt ríkisfang
  • að umsækjandi sé handhafi alþjóðlegs atvinnuréttindaskírteinis  til skipstjórnar eða vélstjórnar sem sé í gildi.

Umsóknir um útgáfu sjóferðabókar má fylla út á skrifstofu Samgöngustofu í Vesturvör 2 í Kópavogi. Á heimasíðu Samgöngustofu er hægt að senda rafræna umsókn um útgáfu sjóferðabókar. Gjald fyrir útgáfu sjóferðabókar er kr. 20.000.