Verðmæti útfluttra sjávarafurða í júlí var mun hærra en útflutningsverðmæti áls ólíkt því sem var í júlí í fyrra. Þá skilaði álið 40% meiri verðmætum en fiskurinn, að því er sjá má í nýbirtum tölum Hagstofunnar um verðmæti inn- og útflutnings.
Í öllum spám í fyrra var gert ráð fyrir því að álið myndi ryðja sjávarafurðum úr vegi í framtíðinni sem mikilvægasta útflutningsvara Íslendinga. Þau umskipti virtust vera að eiga sér stað á árinu.
Í júlí í fyrra voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 11,6 milljarða króna en ál fyrir 16,6 milljarða sem er um 40% hærri upphæð. Í júlí í ár voru hins vegar fluttar út sjávarafurðir fyrir 18,3 milljarða en ál fyrir 14 milljarða. Umskiptin eru þau að í ár voru verðmæti fisksins um 30% meiri en álsins í þessum mánuði.
Fyrstu sjö mánuði ársins í fyrra voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 89 milljarða en ál fyrir um 90 milljarða. Álið hafði þá vinninginn það sem af var árinu þótt ekki munaði miklu. Fyrstu 7 mánuðina í ár nam útflutningur sjávarafurða 113,3 milljörðum króna en útflutningur áls hafði minnkað í 84,7 milljarða. Sjávarútvegurinn hefur tekið afgerandi forystu á ný. Ástæðan fyrir þessu er mikil verðlækkun á áli á heimsmarkaði. Sjávarafurðir hafa að vísu einnig lækkað í verði en ekki eins mikið og álið.
Tölurnar hér að framan eru á verðlagi hvers árs en breytingar á föstu gengi samkvæmt útreikningum Hagstofunnar er þær að verðmæti sjávarafurða hefur lækkað um 13,8% á fyrstu sjö mánuðum ársins en álið hefur lækkað um 36,2%.