Færeyingar fluttu út vörur fyrir tæplega 8 milljarða á árinu 2016 (126 milljarðar ISK) samkvæmt bráðabirgðatölum frá hagstofunni færeysku. Þar af eru sjávarafurðir rúmir 7,6 milljarðar (120 milljarðar ISK). Verðmæti útflutningsins eykst um um 1 milljarð frá árinu 2015, eða 16%.
Það er einkum laxinn sem stendur undir þessari miklu verðmætaaukningu. Á síðasta ári fluttu Færeyingar út lax fyrir tæplega 3,7 milljarða króna (58 milljarða ISK). Þetta er 862 milljóna aukning frá árinu áður, eða 31%. Laxinn skilar jafnframt hátt í helmingi af öllum útflutningstekjum sem færeyskar sjávarafurðir skapa.
Einnig var flutt út meira af markíl og kolmunna en árið áður en útflutningur síldarafurða minnkaði nokkuð. Makrílafurðir gáfu um einn milljarð (16 milljarða ISK) en uppsjávartegundir samanlagt um 1,6 milljarða (25 milljarða ISK). Þorskur, ufsi og ýsa skiluðu samanlagt um 1,1 milljarði (17,3 milljörðum ISK).
Rússland með fjórðung
Rússland er stærsti kaupandi færeyskra sjávarafurða. Þangað var fluttur fiskur fyrir um 1,9 milljarða (30 milljarða ISK) sem er um fjórðungur af heildinni. Þar á eftir koma Bandaríkin sem keyptu færeyskar sjávarafurðir fyrir um 900 milljónir (14 milljarða ISK), um 11% af heildinni. Næst á eftir koma Bretland, Danmörk og Kína.
Helmingur af útflutningnum til Rússlands er lax en þangað fór einnig makríll fyrir 500 milljónir (7,9 milljarða ISK) og síld fyrir 300 milljónir (4,7 milljarða ISK). Útflutningur til Bandaríkjanna var nær eingöngu lax. Bretland keypti lax fyrir 339 milljónir og þorsk fyrir 284 milljónir.