Sýnt hefur verið fram á að mögulegt er að flytja út lifandi trollveiddan leturhumar frá Hornafirði til Suður-Evrópu. Mjög góður árangur hefur náðst við að halda humri lifandi um borð í veiðiskipum. Búast má við allt að þreföldu verði miðað við frosinn humar.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknaverkefnis á Hornafirði sem nýlega er lokið en að því stóðu Frumkvöðlasetur Austurlands, Skinney-Þinganes, Matís, Hafrannsóknastofnun og Promens á Dalvík.

Gerðar voru tilraunir til þess að hirða lifandi humar um borð í humarbátum sem veiða með trolli, en einnig voru gerðar tilraunir til að veiða humar í gildrur í Háfadýpi austan við Vestmannaeyjar.

Lifandi humar var sendur til meginlands Evrópu og komst hann þangað í góðu ástandi. Ásættanlegt verð fékkst fyrir tilraunasendingar til Belgíu, Spánar og Ítalíu.

Í greinargerð AVS sjóðsins sem styrkti þetta verkefni segir að lagður hafi verið grunnur að frekari umsvifum íslenskra fyrirtækja við útflutning á lifandi og ferskum leturhumri. Telja megi að slíkur útflutningur sé sérstaklega áhugaverður ef takist að koma á gildruveiðum á leturhumri sem geti staðið undir sér.

Nánar segir frá þessum máli í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.