Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam tæplega 31 milljarði króna í janúar samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í gærmorgun. Það er um 24% aukning í krónum talið frá janúar í fyrra. Sagt er frá þessu á radarinn.is.

Aukningin er nokkuð meiri í erlendri mynt, eða rúm 28%, þar sem gengi krónunnar var að jafnaði tæplega 4% sterkara nú í janúar en í sama mánuði í fyrra.

Fiskmjöl 4 milljarðar

Í ofangreindri aukningu munar mest um fiskimjöl. Útflutningsverðmæti þess nam um 4,0 milljörðum króna, sem er ríflega þreföldun frá janúar í fyrra á föstu gengi. Eins var veruleg aukning í útflutningsverðmæti lýsis, eða rúm tvöföldun á milli ára. Útflutningsverðmæti þess nam tæplega 1,7 milljörðum króna nú í janúar, en því er slegið saman með útflutningsverðmæti fiskimjöls á myndinni hér fyrir neðan.

Fryst flök 9,1 milljarður

Næst mest munar um fryst flök en þau voru jafnframt fyrirferðamest af einstaka vinnsluflokkum í mánuðinum. Útflutningsverðmæti þeirra nam 9,1 milljarði króna í janúar, sem er um 23% aukning frá sama mánuði í fyrra á föstu gengi. Útflutningsverðmæti ferskra afurða nam um 8,8 milljörðum króna og jókst um 14% á milli ára. Útflutningsverðmæti á frystum heilum fiski var um 2,5 milljarðar króna og jókst um 52% á milli ára. Útflutningsverðmæti flokksins „annarra sjávarafurða“ nam svo um 2,2 milljörðum króna og stóð svo til í stað á milli ára, en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn.

22% minni verðmæti í söltuðum og þurrkuðum afurðum

Samdráttur er í tveimur flokkum, það er söltuðum og þurrkuðum afurðum og svo rækju. Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða nam rúmlega 2,1 milljarði króna í janúar og dróst saman um 22% á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti rækju nam rúmlega 400 milljónum króna og dróst saman um 13% á milli ára. Þar sem um fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar er að ræða liggur ekki fyrir sundurliðun niður á fisktegundir. Þær upplýsingar munu liggja fyrir í lok febrúar þegar Hagstofan birtir ítarlegri upplýsingar um útflutning í janúar.