Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 29,3 milljörðum króna í febrúar samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í síðustu viku. Það er tæplega 5% aukning í krónum talið miðað við febrúar í fyrra. Þar sem gengi krónunnar var um 3% sterkara í febrúar en í sama mánuði í fyrra er aukningin nokkuð meiri í erlendri mynt, eða rúm 8%. Frá þessu segir í Radarnum, vefriti Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Munar mestu um ferskar afurðir

Í umræddri hækkun munar mest um ferskar afurðir. Útflutningsverðmæti þeirra nam rúmlega 7,5 milljörðum króna í febrúar, sem er um þriðjungs aukning frá febrúar í fyrra á föstu gengi. Þá nam útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða um 3,1 milljarði króna í mánuðinum, sem er hátt í helmings aukning á milli ára. Eins var um þriðjungs aukning í útflutningsverðmæti lýsis á milli ára, en verðmæti þess nam rúmlega 3,9 milljörðum króna nú í febrúar. Á móti vóg talsverður samdráttur í útflutningsverðmæti fiskimjöls, eða sem nemur 52% á milli ára. Útflutningsverðmæti þess nam um 2,2 milljörðum króna í febrúar, en því er slegið saman með útflutningsverðmæti lýsis á myndinni hér fyrir neðan.

Af öðrum afurðaflokkum má nefna að rúmlega 5% aukning var í útflutningsverðmæti frystra flaka og 41% aukning í útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“, en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn. Á hinn bóginn var rúmlega 8% samdráttur í útflutningsverðmæti á heilfrystum fiski og tæplega 3% samdráttur í útflutningsverðmæti rækju.

Ferskar afurðir á siglingu

Þess má geta að útflutningsverðmæti sjávarafurða í janúar, sem fjallað var á Radarnum nýverið, reyndust aðeins minni en fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar bentu til, eða 29,3 milljarðar króna í stað 30,8 milljarðar. Engu að síður er um myndarlega aukningu að ræða á milli ára í janúar, eða sem nemur um 20% á föstu gengi. Útflutningsverðmæti sjávarafurða er þar með komið í 58,5 milljarða króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Það er um 14% aukning í erlendri mynt frá sama tímabili í fyrra.

Samdráttur í fiskmjöli og rækju

Af einstaka vinnsluflokkum munar mest um 22% aukningu í útflutningsverðmæti ferskra afurða. Útflutningsverðmæti þeirra er komið í 16,3 milljarða króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins og hefur aldrei verið meira á þessum tíma árs. Sömu sögu er að segja um útflutningsverðmæti lýsis, en verðmæti þess er komið í 5,6 milljarða króna, sem er 50% aukning frá sama tímabili í fyrra. Eins er dágóð aukning í frystum flökum (13%), heilfrystum fiski (10%), söltuðum og þurrkuðum afurðum (8%) og öðrum sjávarafurðum (17%). Samdráttur er í útflutningsverðmæti tveggja vinnsluflokka á tímabilinu, það er fiskimjöls (-18%) og svo rækju (-6%). Miðað við þessar tölur er óhætt að segja að gangurinn í sjávarútvegi hafi verið með ágætum nú í byrjun árs.