Á fyrstu fjórum mánuðum ársins er útflutningsverðmæti afurða frá fiskeldi komið í 8,6 milljarða króna. Þetta er mikil aukning frá því sem verið hefur undanfarin ár.
Þetta kemur fram í frétt Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Þar segir að til dæmis sé þetta hærri fjárhæð en sem nemur útflutningsverðmæti eldisafurða á öllu árinu 2015 og árin þar á undan.
Aukningin á fyrstu fjórum mánuðum ársins í krónum talið, miðað við fyrstu fjóra mánuði fyrra árs, nemur 71%. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2018 nam útflutningurinn rétt rúmum 5 milljörðum króna, en er eins og áður segir, nú kominn í 8,6 milljarða. Sem hlutfall af heildar útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi eru þetta ríflega 10% og hlutfallið hefur aldrei mælst hærra. Fari svo fram sem horfir má gera ráð fyrir að verðmæti útfluttra afurða frá fiskeldi verði í kringum 25 milljarðar króna á þessu ári.
Ef einungis er horft til nýliðins aprílmánaðar þá nam útflutningsverðmæti frá fiskeldi rúmum 2 milljörðum króna. Ef miðað er við apríl í fyrra er þetta aukning um 137%, en þá nam útflutningsverðmætið 872 milljónum króna.