Á fyrstu 10 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í tæpa 38 milljarða króna. Það er um 24% aukning í krónum talið frá sama tímabili í fyrra, en um 29% sé tekið tillit til gengisbreytinga. Útflutningsverðmæti eldisafurða hefur aldrei áður verið meira á tímabilinu og er í raun nú þegar orðið meira en það hefur áður verið á heilu ári. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti sem birtar voru í síðustu viku. Þar er einungis að sjá tölur um útflutningsverðmæti eldisafurða í heild, en ekki niður á einstaka eldistegundir eða útflutt magn. Greint er frá þessu í veffréttabréfi SFS.

Hækkun á afurðaverði meginástæða

Þróunin í ár er nokkuð ólík þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár. Það má sjá á myndinni hér fyrir neðan, sem sýnir hvernig samspil afurðaverðs í erlendri mynt, gengi krónunnar og magns hefur áhrif á útflutningsverðmæti eldisafurða í krónum talið. Þetta er byggt á ársfjórðungstölum Hagstofunnar og því aðeins hægt að sjá þróunina á fyrstu 9 mánuðum ársins. Fyrri ár eru heilsárstölur. Á myndinni blasir við að sú aukning sem orðið hefur í útflutningsverðmætum eldisafurða á árinu má alfarið rekja til hækkunar á afurðaverði, en markaðsverð á laxi hefur náð sögulegum hæðum á árinu. Á sama tíma stóð útflutt magn svo til í stað, ólíkt fyrri árum þegar stóraukin framleiðsla (magn) var megindrifkraftur aukinna útflutningsverðmæta.

Á næstu árum má reikna með að framleiðslan aukist á ný í ljósi mikillar uppbyggingar í fiskeldi nú um stundir og á næstu árum. Það er afar jákvætt enda er mikilvægt að útflutningur sé fjölbreyttur og ekki of háður gengi einstakra atvinnugreina, ekki síst fyrir lítil opin hagkerfi eins og það íslenska.