Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur auglýst útboð á þremur nýjum björgunarskipum. Útboðið er stærsta einstaka fjármögnunarverkefni sem Landsbjörg hefur ráðist í. Fyrirhugað er að skipin verði tekin í notkun fyrir árslok 2023.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Björgunarskipin þrjú, sem nú hafa verið boðin út, koma í stað eldri skipa Landsbjargar en samtökineiga þrettán björgunarskip. Flest þeirra eru komin vel til ára sinna en elsta skipið var smíðað árið 1978.

Björgunarskip Landsbjargar eru mikilvægur hlekkur í þéttu öryggisneti björgunarsveitanna. Þau eru mönnuð sjálfboðaliðum og sinna að jafnaði á bilinu 70 til 110 útköllum árlega. Útboðið er fyrsti áfanginn í endurnýjun skipanna. Það er haldið á grundvelli samkomulags við dómsmálaráðuneytið um að ríkið fjármagni hluta verkefnisins en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, auk dómsmálaráðherra rituðu nýlega undir viljayfirlýsingu um endurnýjun flotans næstu tíu árin.

Undirbúningur útboðsins hefur staðið yfir frá miðju síðasta ári. Landsbjörg hefur með dyggri aðstoð Ríkiskaupa og vinnuhóps ráðuneyta sniðið útboðslýsinguna að hlutverki skipanna. Að verkinu hefur einnig komið nýsmíðanefnd björgunarskipa frá Landsbjörgu en í henni eiga sæti reynslumiklir sjálfboðaliðar úr áhöfnum björgunarskipa Landsbjargar.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu en ráð er gert fyrir að smíði á fyrsta skipinu hefjist fyrir haustið.

Fiskifréttir fjölluðu ítarlega um málið í sérblaðinu Öryggi í sjávarútvegi sem kom út 21. janúar sl. Þar var rætt við Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar. Hér fer sú umfjöllun eftir:

Stefnt að 13 nýjum björgunarskipum

Slysavarnafélagið Landsbjörg horfir fram á stærstu fjárfestingu í sögu félagsins en ráðgert er að endurnýjan allan björgunarskipaflota, alls þrettán skip. Stjórnvöld skrifuðu í gær undir samkomulag um kaup á 3 nýjum björgunarskipum í samstarfi við Landsbjörg og viljayfirlýsingu um kaup á 7 skipum til viðbótar á næstu 10 árum. Tilboð í fyrstu þrjú skipin verða opnuð í næsta mánuði og hugsanlegt að fyrsta skipið verði komið í notkun á þessu ári.

Þór Þorsteinsson, sem tók við sem formaður Landsbjargar á vordögum 2019, segir að verið sé að skoða óhefðbundnar leiðir í fjármögnun.

Þór er sveitastrákur úr Borgarfirði. Hann er kerfisfræðingur og býr í Lundarreykjadal. Auk þess að gegna formennsku Slysavarnafélagsins Landsbjargar, starfar hann við sérverkefni hjá Neyðarlínunni

„Stærsta fjárfestingaverkefni félagsins frá upphafi er endurnýjun á björgunarskipum félagsins. Við höfum fengið staðfestingu á styrk frá ríkinu upp á helming kostnaðar í þremur skipum. Óljóst er ennþá hvernig verkefninu vindur fram í framhaldinu en markmiðin eru háleit. Þau björgunarskip sem við gerum út núna eru vissulega í ágætu standi. En að halda þeim í góðu standi kallar á stöðugt meiri útgjöld auk þess sem aðbúnaður og ganghraði er barn síns tíma,“ segir Þór.

30 ára floti

Elsta björgunarskipið er smíðað árið 1978. Ellefu af þessum þrettán björgunarskipum eru svonefndir Arun Class bátar sem eru aflögð björgunarskip konunglegu bresku sjóbjörgunarsveitanna, RNLI. Það yngsta var smíðað 1988 og meðaldur flotans er rúmlega 30 ár. Skipin fengust á sínum tíma nánast að gjöf eða gegn málamyndagreiðslu. Þessi skip hafa aðildarfélög Landsbjargar nú notað í nokkra áratugi.

„Við þurfum björgunarskip sem þola siglingar á úthafinu. Við þurfum að komast alveg 200 sjómílur út frá landi. Það er gríðarlega mikið öryggismál að þessi hlutir séu í lagi hjá okkur. Vissulega erum við með varðskip en Landhelgisgæslunni er naumt skammtað til þess að standa undir rekstri á núverandi flota. Ég á von á því að það sjái það allir í hendi sér að ekki verður staðið að þessum málum með hagkvæmari hætti en með sjálfboðaliðum. Staðreyndin er hins vegar sú að góður og nútímalegur aðbúnaður í björgunarskipum auðveldar það fá sjálfboðaliða til starfa,“ segir Þór.

Samstarf við hagsmunaaðila

Markmiðið með endurnýjuninni er að flotinn verði samsettur af betri skipum með betri aðbúnaði. Aðbúnaður í núverandi bátum stenst ekki kröfur nútímans. Auk þess eru þeir allt of hæggengir. Þór segir að það sé til lítils að halda úti björgunarskipum sem dagróðrarbátar geta tekið fram úr hvenær sem er.

Ganghraði núverandi flota er 16-17 mílur en stefnt er að því að keyptir verði bátar með ganghraða upp á 30-35 sjómílur. Í útköllum skiptir tíminn meginmáli og því einkar mikilvægt að ganghraði bátanna og sjóhæfni sé sem best.

„Þetta er gríðarlega stórt verkefni og vissulega kemur ríkið að með stuðningi en það dugar ekki til. Stuðningur ríkisins er allt að 150 milljónir króna á hvert skip en þó aldrei meira en helmingur af heildarkostnaði.“

Ríkið myndi því leggja fram 125 milljónir króna ef skipið kostar 250 milljónir og Landsbjörg þarf að fjármagna annað eins. Samningurinn nær eingöngu til þriggja fyrstu skipanna og Þór segir að ekki verði framhald á verkefninu nema stuðningur ríkisins haldi áfram.

„Við erum mjög þakklát fyrir þennan stuðning og ég skil vel að ríkið vilji ekki skuldbinda sig til næstu þrettán ára. En ég hef fulla trú á því að ef vel er staðið að verki með fyrstu þrjú skipin verði áframhald á verkefninu öllu.“

Þór segir að helst vilji félagið endurnýja eitt skip eða fleiri á ári. Félagið standi hins vegar frammi fyrir þeim veruleika að það geti ekki varið 150 milljónum á ári til endurnýjunar flotans af sínum hefðbundnu tekjum. Yrði það gert yrðu önnur verkefni að víkja. Þess vegna þurfi að leita til styrktaraðila.

„Við þurfum meðal annars að leita til sjávarútvegsfyrirtækja um liðsinni við að fjármagna okkar hluta. Það samtal er að hefjast. Björgunarskipin verða með ákveðnar heimahafnir og við þurfum að höfða til stærri sjávarútvegsfyrirtækja á hverjum stað og reyna að fá þau til að taka þátt í þessu með okkur.“

Boðið út á evrópska efnahagssvæðinu

Björgunarskipin verða eins og áður í Grindavík, Sandgerði, Reykjavík, Rifi, Patreksfirði, Ísafirði, Skagaströnd, Ólafsfirði, Raufarhöfn, Vopnafirði, Norðfirði, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum. Þór segir að málið verði  vonandi unnið í góðri samvinnu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sem og aðra hagsmunaaðila sem verði haldið vel upplýstum um gang mála. Jafnvel verði leitað til SFS til að koma að málinu með öðrum hætti.

„Við vonumst eftir að fá til liðs við okkur einn aðalstyrktaraðila á bak við hvert skip. Það hugnast okkur að þeir sem leggi verkefninu lið verði sýnilegir fyrir vikið. Fyrir þessu eru fordæmi annars staðar frá. Þetta yrði þá ný aðferðafræði sem ekki hefur verið reynd hér áður. Sjóbjörgunarsamtök í nágrannalöndunum virðast eiga auðveldara með að fjármagna skip af þessu tagi og fá þau jafnvel gefins.“

Þór segir að yrði leitað eftir framlögum frá landsmönnum vegna endurnýjunar björgunarskipaflotans væri sú hætta til staðar að drægi úr framlögum á öðrum sviðum. Innan vébanda Landsbjargar eru 93 björgunarsveitir 37 slysavarnadeildir sem allar eru sjálfstæðar, fjárhagslegar einingar og með sínar eigin fjáraflanir. Flugeldasala og sala á neyðarkallinum eru mikilvægar fjáröflunarleiðir. Þær eru skipulagðar af Landsbjörgu en tekjurnar renna allar til aðildarfélaganna.

Undirbúningsferlið og útboðslýsing stendur nú sem hæst og er það unnið í samvinnu Landsbjargar og Ríkiskaupa. Í næsta mánuði er stefnt að því að óska eftir tilboðum í þrjú fyrstu skipin. Þar sem ríkið hefur aðkomu að fjármögnuninni verður fyrirtækjum af evrópska efnahagssvæðinu boðið að taka þátt í útboðinu. Stefnt er að samningum við einn aðila um smíði á fyrstu þremur skipinum. Þór segir margt ávinnast með því að hafa skipin þrjú eins, til að mynda hvað viðkemur þjálfun og viðhaldi. Um er að ræða forathugun og í framhaldi verður efnt til lokaðs útboðs meðal þeirra sem valdir eru á grunni forathugunarinnar.