Hann er fæddur á Flateyri við Önundarfjörð, fiskaði með færi á bryggjunni, beitti fyrir línubáta og veiddi síld með hálfgerðum nýliðum norður undir Svalbarða. Gekk menntaveginn, gerðist farandsölumaður, vann hjá „Patton“ á Keflavíkurflugvelli en lengst af að námi loknu hjá Fiskveiðasjóði Íslands þar sem hans hlutverk var meðal annars að úrelda á fimmta hundrað skip og báta. Hann hefur starfað með sex sjávarútvegsráðherrum á ellefu árum og nú er komið að starfslokum í ráðuneytinu. Maðurinn er Hinrik Greipsson.
Hinrik fæddist á Flateyri 24. ágúst 1947 og þar ól hann aldur sinn meira eða minna þar til 1972 þegar hann giftist lífsförunaut sínum, Ástu Eddu Jónsdóttur. Hann var í sveit í Valþjófsdal í Önundarfirði sem krakki frá 10 ára til 15 ára aldurs en byrjaði þó ungur að árum að sækja sjóinn.
„Móðurbróðir minn átti litla trillu og lagði rauðsprettunet innarlega í Önunarfirði. Sjö eða átta ára gamall réði ég mig til hans til þess að greiða út netum og hengja upp á snúrustaura. Fyrst átti ég að fá ákveðna greiðslu fyrir hvert net en ég var svo iðinn við kolann að hann ákvað að setja mig strax á mánaðalaun. Það hefur sennilega komið betur út fyrir hann. Ég fór líka með honum út á sjó annað slagið. Lífið á Flateyri snerist allt í kringum sjóinn. Ég var við beitingar líka,“ segir Hinrik.
Börnin ekki undanþegin vinnu
Á þessum árum var talsvert umleikis á Flateyri. Þá voru gerðir út þaðan síðutogararnir Gyllir og Guðmundur Júní. Oft var plássið allt fullt af fiski og Hinrik byrjaði 9 ára gamall að vinna líka í frystihúsinu við að spyrða fisk sem hengur var upp í hjöllum og varð að skreið fyrir Afríkumarkað.
„Það þótti sjálfsagt mál að allir sem gætu unnið gerðu það og börnin voru ekki undanskilin. Það barst svo mikill afli að landi frá togurunum að frystihúsið réði ekki við það allt saman. Þess vegna fór talsverður hluti í skreið. Á þessum tíma eru 550 manns með búsetu á Flateyri og svo komu Færeyingar til vinnu í frystihúsinu og á bátana yfir vertíðina. Núna búa á Flateyri um 250 manns.“
Hinrik lauk landsprófi frá héraðsskólanum á Núpi vorið 1963 og réði sig þá um haustið í beitningu fyrir m.b. Hinrik Guðmundsson ÍS á Flateyri og leysti af á bátnum í forföllum. Báturinn hét eftir afa Hinriks og var gerður út af Jóni Gunnari Stefánssyni sem var með saltfiskverkun á Flateyri og seinna einn af eigendum að frystihúsinu.
„Skammturinn var átta og hálfur bali á dag sem þurfti að beita, á föstum launum. Fyrstu vikurnar var ég í 12 til 14 tíma með skammtinn. Átan í síldinni át á manni húðina. Ég smurði hendurnar upp úr júgurfeiti og svaf með ullarvettlinga til að geta haldið áfram næsta dag. Það voru engir vettlingar til í þessa daga til að nota við beitningu eins og nú er.“
Á síldveiðar við Svalbarða
Í ársbyrjun 1964 fór Hinrik á net 16 ára gamall. Í framhaldinu var farið á humar yfir sumarið og landað í Hafnarfirði. Þá um haustið hóf Hinrik nám í Menntaskólanum á Akureyri og var í vegavinnu á sumrin. Nýútskrifaður stúdentinn árið 1968 gerðist handlangari hjá múrara á Suðureyri en hafði ekki lengi unnið við það þegar hann fékk upphringingu frá útgerð Guðrúnar Guðleifsdóttur ÍS, sem var mikið aflaskip frá Hnífsdal, og honum boðið pláss. Þekktur aflaskipstjóri, Jóakim Pálsson, var með skipið, og til stóð að fara á síldveiðar við Svalbarða. Þremur dögum síðar var Hinrik mættur um borð í skipið.
„Þegar við leysum landfestar kastar Jóakim á mig kveðju og ég spyr hvort hann ætli ekki með. Hann svarar því neitandi og segir að Villi Siggi sé skipstjóri sem þá var 22 ára gamall. Stýrimaðurinn var Grétar Kristjánsson og var líka 22 ára gamall. Sá eini sem var með einhverja reynslu var bátsmaðurinn Annas Sigmundsson, pabbi skipstjórans og “guttans”. Svo var siglt norður í ballarhaf í fjóra sólarhringa og þarna vorum við í tvo mánuði. Í þá daga voru menn ekki með þessar stóru og djúpu nætur sem nú tíðkast og síldin stóð mjög djúpt. Það var því erfitt að komast að henni. Við fengum einu sinni fullfermi, 200 tonn.“
Byrjunin lofaði ekki góðu. Þeir höfðu kastað fjórtán sinnum án þess að fá svo mikið sem hreistur í nótina. Í fimmtánda kasti fór nótin beinustu leið í skrúfuna.
„Það drapst á vélinni og við vorum í vandræðum. Við kölluðum út hvort kafari væri á einhverjum af nærstöddum bátum. Svo reyndist vera og það var skorið úr skrúfunni. Við reyndum að bæta nótina og stóðum við það í 36 tíma. Þá kallaði skipstjórinn á ný á nærstadda báta og spurði hvort vanir netamenn væru á lausu. Svo vildi til að tveir netamenn voru á Sóley ÍS frá Flateyri og þeir rippuðu þessu saman fyrir okkur á þremur eða fjórum tímum. Reynsluleysið var algjört. Það voru mest viðvaningar um borð en auðvitað hafði bæði skipstjórinn og stýrimaðurinn verið mikið til sjós þrátt fyrir ungan aldur. Í áhöfninni voru einnig faðir skipstjórans sem var bátsmaður og bróðir hans, Sigmundur Annasson, fjórtán ára gutti.“ Þess má til gamans geta að sonur þessa 14 ára snáða, Annas Jón Sigmundsson tekur nú við flestum af verkefnum Hinriks í ráðuneytinu.
Flutningsskip komu á miðin og færðu skipunum vistir og tóku við síldinni sem fór öll til bræðslu. Hvert fiskiskip gat fengið 6 tonn af hreinu vatni en eins og þau vildu af vatni úr lestum flutningaskipsins, sem var með síldarbrák.
„Það endaði með því að það var lýsisbrák á öllu um borð í skipinu. Maður fékk sér kaffi og það var síldarbrák á því. Eftir að hafa baðað sig var nauðsynlegt að hella yfir sig rakspíra til að dempa grútarlyktina.“
Krakus niðursuðuvörur og sokkabuxur með klofbót
Það voru engin uppgrip á síldveiðunum og eina sem hafðist út úr þessu var kauptrygging. Haustið 1968 heldur Hinrik suður og hefur nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann var peningalaus eftir ævintýrið við Svalbarða og átti ekki fyrir skólabókunum.
„Ég réði mig því í farandsölumennsku hjá Íslensk-erlenda verslunarfélaginu í Tjarnargötu meðfram náminu. Friðrik Sigurbjörnsson, eigandi fyrirtækisins, gerði mig út með tvær ferðatöskur með margvíslegum varningi. Ég fór aðallega í verslanir á Laugaveginum og víðar og reyndi að selja allt frá Krakus niðursuðuvörum til sokkabuxna með klofbót, sem var mikil nýjung á þessum tíma. Auk þess flutti Friðrik inn alls kyns glingur sem ég reyndi að selja.“
Hjá Patton
Sumarið 1969 og næstu 3 sumur þar á eftir var Hinrik slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli hjá „Patton“. Slökkviliðið var á vegum bandaríska hersins og fékk verðlaun á hverju ári sem besta slökkviliðið innan Nato-sveitanna. Sveinn Eiríksson var slökkviliðsstjóri. Hann var mikill stjórnandi og var kallaður „Patton“ með vísun í hershöfðingjann kunna George S. Patton, sem m.a. fór fyrir innrás bandamanna í Normandí í júní 1944.
„Seinasta sumarið mitt hjá „Patton“ var ég farinn að slá mér upp með konunni minni. Félagar mínir ætluðu að taka mig með suður á völl en ég svaf yfir mig og tók leigubíl. Ég var mættur fimm mínútur yfir átta en vaktaskipti voru kl. 8. Í framhaldinu kallaði „Patton“ mig inn á skrifstofu og sagði: „Hinrik Greipsson. Ef þú kemur einu sinni enn of seint til vinnu þarftu ekki að hafa fyrir því að mæta.“ Það gerðist náttúrulega ekki eftir þetta.“
Hjá slökkviliðinu var frí samfellt í fimm daga í hverjum mánuði og nýtti Hinrik sér það til að fara á skak með móðurbróður sínum á Flateyri. Sjómennskubakterían lá djúpt í eðlinu og ekki svo auðvelt að losna við hana.
Undir lok viðskiptafræðinámsins rakst Hinrik á auglýsingu þar sem leitað var eftir viðskiptafræðingi hjá Fiskveiðasjóði Íslands. Útvegsbankinn sá um ráðningar fyrir sjóðinn og þar hitti Hinrik starfsmannastjórann Reyni Jónasson sem reyndi að fá Hinrik til þess að taka að sér starf í gjaldeyrisdeild bankans. Áhugasvið hans lá þó ekki þar heldur í því sem snerist í kringum sjóinn. Hinrik var ráðinn til Fiskveiðasjóðs 1. júní 1973.
Tíðar gengisfellingar
„Ég ætlaði að vera þar í mesta lagi 2-3 ár því fyrst ég var að ljúka viðskiptafræðinámi fannst mér að ég yrði að vinna skrifstofuvinnu af þessu tagi í einhvern tíma. En launin lækkuðu um tvo þriðju frá því sem ég hafði haft hjá slökkviliðinu. En svo var svo mikið að gera hjá Fiskveiðasjóði. Það voru tíðar gengisfellingar á þessum árum og öll lán sjóðsins voru gengistryggð. Það þurfti endurreikna þau og allir vextir voru handreiknaðir því engar voru tölvurnar. Fiskveiðasjóður lánaði til kaupa á nýjum skipum og til endurbóta á skipum en einnig fasteignalán til fiskvinnslunnar. Allur fiskiskipaflotinn var skyldugur að greiða 10% af aflaverðmæti í Stofnfjársjóð fiskiskipa sem fór til þess að greiða niður lánin. Þeir sem ekki voru lántakendur sjóðsins fengu þessar greiðslur endurgreiddar. Þeir sem voru með mikil lán greiddu jafnvel 15-20% af aflaverðmæti inn í sjóðinn.“
Á fyrstu árum áttunda áratugarins stækkar skipaflotinn óðfluga og það eru keyptir togarar á næstum hvern einasta fjörð. Mikið uppbyggingarskeið var í sjávarútvegi, jafnt í skipum og í fiskvinnslu. Fiskveiðasjóður var aðal lánveitandinn og fjárheimildir (lántökur) sjóðsins voru ákveðnar í fjárlögum. Lántakendur nýrra skipa, sem smíðuð voru erlendis þurftu áður að hafa tryggt sér erlent lán til að minnsta kosti fimm ára í gegnum sinn viðskiptabanka og þegar það gjaldféll greiddi Fiskveiðasjóður það upp á 5 árum og lengdi í láninu til 18 ára. Erlendu lánin komu í gegnum viðskiptabanka útgerðanna. Margir bátanna voru smíðaðir í Noregi og því var algengt að fimm ára lánin kæmu frá norskum bönkum.
„Á þessum áratug, það er frá 1970-1980, hafa verið keyptir einir 30 nýir skuttogarar. Menn sóttu eins og þeir gátu og mokuðu stundum upp fiski. En samt gekk útgerðin ekki vel. Stór hluti okkar vinnu voru skuldbreytingar lána. Ástæðan var líka sú að gengið var svo óstöðugt. Það voru gengisfellingar einu sinni til tvisvar á ári. Þá þurftum við að enduruppreikna öll lán og deila afborgunum upp á nýtt út lánstímann. Við unnum þrjá daga vikunnar frá átta á morgnana til sjö á kvöldin, þriðjudaga og fimmtudaga frá átta á morgnana til tíu á kvöldin og laugardaga frá átta til tvö. Það var svo mikið að gera að ég hafði aldrei tíma til að leiða hugann að því að skipta um starfsvettvang,“ segir Hinrik.
Nýleg skip eyðilögð eða seld út landi
Í árslok 1997, á 90 ára afmælisári Fiskveiðasjóðs, rann hann, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður inn í Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Hinrik hafði haft á sinni könnu meðfram starfinu hjá Fiskveiðasjóði að halda utan um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem hafði verið settur á laggirnar 1994. Hlutverk hans var að halda utan um úreldingu fiskiskipaflotans en yfirlýst markmið var að fækka skipum með veiðileyfi þar sem fiskiskiptaflotinn þótti alltof stór til þess að veiða þann afla sem talið var óhætt að veiða. Hinrik sagði skilið við Fiskveiðasjóð þegar hann rann inn í Fjárfestingabanka atvinnulífsins en hélt áfram sem framkvæmdastjóri og eini starfsmaður Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.
„Ég úrelti á þessum tíma 460 skip en það var einungis brot af flotanum öllum sem var á þriðja þúsund skip. Það vildu allir eiga bát en afkoman var í heildina mjög léleg. Þó var auðvitað einn og annar sem gerði það gott og þá vildu fleiri reyna fyrir sér. Þessi skip sem ég var að úrelda voru sum hver ný.“
Til að uppfylla reglur um úreldingu í upphafi þurfti annað hvort að selja skip úr landi eða eyða því. Eigandi fékk í staðinn greiðslu frá Þróunarsjóðnum sem nam 45% af vátryggingarmati skips.
„Ný skip voru seld úr landi en svo líka nýlegir smábátar sem voru bókstaflega sagaðir niður. Þetta var auðvitað mikil sóun á verðmætum og kallaði á talsverð viðbrögð. Kristinn H. Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon nefndu þetta til að mynda „öskuhaugahagfræði“ í þingsal.
Á upphafsreit
Gerðar voru breytingar á lögunum um Þróunarsjóð árið 1996. Nú gátu eigendur skipa fengið úreldingarstyrk en um leið haldið þeim á skipaskrá sem skemmtibát eða vinnubát. Þetta varð til þess að mikil hrina úreldingar smábáta hófst. Úreldingarstyrkurinn lækkaði niður í 20% af vátryggingarmati.
Þróunarsjóður hafði heimild til þess að kaupa skip sem fóru í úreldingu og selja þau úr landi. Þannig keypti sjóðurinn alls um 60 smábáta. Starf Hinriks fólst því öðrum þræði í skipasölu til útlanda. Hann seldi skip til Noregs, Færeyja, Rússlands og fleiri landa og þannig fengust einhverjir fjármunir upp í úreldingarstyrkinn sem greiddur hafði verið út. Hinrik tók „pungaprófið“ 1986 í kvöldskóla. Það kom sér ágætlega þegar ná þurfti í bát til Vestmannaeyja sem hann sigldi einn síns liðs til Reykjavíkur.
Þróunarsjóður var bein afleiðing af upptöku kvótakerfisins áratug áður og markmiðið var að aðlaga afkastagetuna að afrakstursgetu nytjastofna sjávar. Á þessum árum var eiganda skips óheimilt að láta smíða nýtt skip sem var stærra en það sem fyrir var nema hann keypti annað skip og léti úrelda það og þá án styrks úr Þróunarsjóði. Hinrik segir að menn hafi þó staðið á ný á upphafsreit hvað þetta varðar eftir að svokallaður Valdimarsdómur var kveðinn upp. Valdimar Jóhannesson, þáverandi blaðamaður, höfðaði þá mál gegn íslenska ríkinu til þess að fá staðfest að kvótakerfið stríddi gegn stjórnarskránni. Hann vann málið fyrir Hæstarétti og var niðurstaðan sú í grundvallaratriðum að allir ættu að eiga kost á því að fá veiðileyfi.
„Þetta hafði mikil áhrif. Ég man að Sigurður Einarsson heitinn, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum hafði keypt mikið magn af rúmlestum til þess að eiga upp í stækkun á sínum flota þegar Valdimarsdómurinn gekk. Niðurstaðan var sú að allir fengju veiðileyfi sem ættu bát og þar með þurfti ekki að úrelda bát á móti stækkun á nýjum báti. Sigurður gat því aldrei notað þær rúmlestir sem hann hafði keypt og tapaði líklega tugum milljóna króna. Ég held að Ísland sé eina landið í veröldinni sem ekki getur haft stjórn á stærð fiskiskipastólsins.“
Hinrik segir að þarft verk hafi verið unnið af Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Hann hafi stuðlað að samþjöppun í greininni sem er nauðsynleg til þess að rekstrargrundvöllur skapaðist. Útgerð hafði verið rekin með bullandi tapi á árum áður og verkefni Fiskveiðasjóðs voru stöðugar skuldbreytingar lána fyrir skuldsettar útgerðir.
Skilaði af sér sjóðnum með 700 milljóna eign
Hinrik leigði skrifstofu hjá Byggðastofnun á Engjateig undir starfsemi Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Byggðastofnun var síðan flutt til Sauðárkróks árið 2001 og samdi stjórn sjóðsina þá við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins um skrifstofuaðstöðu fyrir Hinrik og sjóðinn og þar var hann vistaður til ársloka 2005. Úrelding skipa átti sér stað í þrjú ár á árunum 1994 til 1997. Þróunarsjóður hafði tekið lán frá hinu opinbera upp á nokkra milljarða kr. til að greiða út úreldingarstyrki. Í upphafi hafði verið ákveðið að leggja þróunarsjóðsgjald á fiskiskipaflotann sem réðst af stærð skipa og aflaheimildum þeirra. Gjaldið var hugsað til þess að fjármagna sjóðinn og þá skuld sem hann var í við hið opinbera. Í upphafi við stofnun sjóðsins var höfuðstóll Þróunarsjóðsins neikvæður um tæpan milljarð króna. Þróunarsjóðsgjaldið skilaði um 500-700 milljónum króna á ári. Upphaflega stóð til að sjóðurinn yrði lagður niður árið 2006 og átti Hafrannsóknastofnun að fá eignir eða skuldir hans þegar hann yrði gerður upp. Áður en til þess kom, eða um aldamótin 1999/2000 var ákveðið að sjóðurinn myndi fjármagna kaup á nýju hafrannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnun. Þegar þáverandi sjávarútvegsráðherra, Árni Mathiesen, verður þess áskynja árið 2004 hve góð staða sjóðsins er í árslok 2003, leggur hann fram frumvarp á Alþingi að sjóðnum verði lokað í árslok 2005. Þegar Hinrik loks lokar sjóðnum í árslok 2005 voru hreinar eignir hans um 700 milljónir króna sem runnu til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Þá var búið að gera upp milljarðs skuldina, greiða út hátt í fimm milljarða króna í úreldingarstyrki á líftíma sjóðsins og greiða upp lán að fjárhæð tæplega tveir milljarðar, sem tekið var fyrir smíði hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar.
Þegar þetta gerist átti Hinrik enn eftir fjögur ár í starfi en sjóðurinn verið lagður niður. Í stjórn sjóðsins voru Magnús Gunnarsson formaður stjórnar, Þorgeir Eyjólfsson, sem þá var einnig framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, og Pétur Bjarnason sem nú starfar hjá AVS-sjóðnum á Sauðárkróki. Hinrik fór á fund þeirra og bauð þeim að gera við sig starfslokasamning ellegar reyna að útvega sér aðra vinnu. Magnús hringdi í Árna Mathiesen sjávarútvegsráðherra og spurði hvort ekki væri hægt að nýta starfskrafta Hinriks í sjávarútvegsráðuneytinu og þar hóf hann störf 1. janúar 2006.
Þar tók hann strax við utanumhaldi byggðakvótans sem hafði verið hálfgerður höfuðverkur í ráðuneytinu fram að því. Hann kom skikk á þau mál. Ellefu ár var hann í sjávarútvegsráðuneytinu.
Síðbúið sumarfrí
„Þegar ég byrjaði í sjávarútvegsráðuneytinu var Einar K. Guðfinnsson tekinn við sem sjávarútvegsráðherra af Árna. Ég hitti því Árna aldrei þótt það hefði verið hann sem réði mig. Núna er rætt um það innan ráðuneytisins að sá byggðakvóti sem ráðuneytið hefur séð um renni inn í nýtt kerfi sem Byggðastofnun haldi utan um. Meira samstarf verði um úthlutun byggðakvóta við sveitarstjórnir og svæðasambönd og honum verði dreift til lengri tíma. Fram að þessu hefur það verið ákveðið árlega hvert byggðakvótinn fer eftir ákveðnum úthlutunarreglum. Þetta hefur þann ókost í för með sér að oft er skaðinn skeður á viðkomandi stöðum. Hugsunin er því sú að grípa inn atburðarásina þegar séð er að hverju stefnir. Hugmyndin með nýja kerfinu er meiri fyrirsjáanleiki. Fyrirtæki fái úthlutun jafnvel til tíu ára sem myndar meiri festu,“ segir Hinrik.
En nú eru tímamót og Hinrik kveður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með talsverðum söknuði. Lífið býður upp á margar óvæntar hliðar eins og þá að sá sem tekur við af Hinrik í ráðuneytinu er Annas Sigmundsson sem er sonur Sigmundar Annassonar „guttans“ sem var með Hinriki við síldveiðar á Svalbarða 1968. Sá sem þetta skrifar starfaði einnig með Annasi við blaðamennsku á Viðskiptablaðinu á árunum rétt fyrir hrun.
Hinrik segir ráðuneytið eins og eina stóra fjölskyldu og starfsandi mjög góður. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var sjötti sjávarútvegsráðherrann sem Hinrik vann með. Hann kvíður þó ekki framhaldinu og lítur þannig á að hann sé að fara í síðbúið sumarfrí. Hann ætlar að rifja upp gamla takta í golfíþróttinni og veiða á stöng með félögum sínum.
„Við fórum í mörg ár þegar ég var hjá Fiskveiðasjóði í sjóbirting í Fljótshverfi austan Kirkjubæjarklausturs. Nú förum við félagarnir saman í Volann sem er áveituskurður í Flóanum. Þangað safnast sjóbirtingur á haustin og við höfum farið undanfarin ár tvo til þrjá túra og fengið allt upp í sjö punda sjóbirtinga.“