Bæjaryfirvöld í Ísafjarðarbæ hafa samþykkt að setja 441 milljón króna í hafnarframkvæmdir á næsta ári.
„Uppstaðan í þessari upphæð er að klára lenginguna á Sundabakkanum,“ segir Hilmar Kristjánsson Lyngmo hafnarstjóri. Það sé í heild verk fyrir á annan milljarð króna.
Hilmar segir að eftir sé að ljúka við dýpkun og að steypa upp tengihús fyrir vatn og rafmagn. Leggja þurfa rafmagnið, setja upp ljósastaura, malbika og girða. Varðandi bakkann segir Hilmar að búið sé að reka niður þilið og steypa þekjuna.
Vegna tafa sem hafa orðið á framkvæmdum segir Hilmar Sundabakka ekki kominn í fulla notkun. Einhver skemmtiferðaskip hafi þó lagst þar að síðara hluta sumars er búið hafi verið að steypa hluta af þekjunni með fram kantinum.
Fjarvera eins skips kostaði 110 milljónir
„Það átti að vera búið að dýpka fyrir ári síðan og vegna tafa á dýpkun voru afbókanir sem kostuðu hafnarsjóð 154 milljónir króna,“ segir Hilmar um afleiðingar þess að verkið hefur tafist svo mikið.
„Það var til dæmis eitt skemmtiferðaskip sem átti fjórtán komur sem komst ekki upp að kantinum af því að það var ekki búið að dýpka. Það eru 110 milljónir, bara það skip. Síðan voru önnur skip sem áttu bókað við kantinn og þurftu að vera við ankeri. Þau borga þá minna fyrir að vera við ankerislægi heldur en að vera við kantinn,“ útskýrir Hilmar stöðuna
Áhrifin ná vitanlega til fleiri en hafnarsjóðs eins. Áðurnefnt skipið sem átti bókaðar fjórtán komur til Ísafjarðar í sumar hafi til dæmis yfirleitt tekið aukanótt á Akureyri í staðinn með tilheyrandi tjóni fyrir ferðaþjónustuna á Ísafirði.
Leigðu rútur en lentu í vandræðum
„Það var til dæmis einn lítill einstaklingur sem er með jeppaferðir með fólk upp á fjöll og um einhverja slóða sem þurfti að endurgreiða 350 þúsund krónur eftir eina kanseleringuna,“ segir hafnarstjórinn.
Rútufyrirtæki hafi orðið af umtalsverðum tekjum. „Þau hafa ekki sagt mér upphæðirnar en ég veit að það var mikið,“ segir Hilmar.
Eitt fyrirtæki hafi gengið frá leigum á rútum að sunnan og víðar að fyrir farþega skemmtiferðaskipa. „Svo náttúrlega þegar skipið hættir við að koma með mánaðar fyrirvara eru menn í veseni með að afbóka og alls konar ævintýri í kringum það.“
Enn sé ekki ljóst hvort náist að ljúka við Sundbakka fyrir næsta vor.
Tafir á skráningu dýpkunarskips
„Það er aðallega út af dýpkuninni. Hún átti að vera búin fyrir ári síðan og er ekki búin enn. Dýpkunarskipið bara kom ekki,“ segir Hilmar. „Það er bara Landeyjahöfn sem stjórnar því hvenær dýpkunarskipið kemur vestur því þeir sem eru með þetta verk eru fastir þar.“ Margt hafi sett strik í reikninginn.
„Björgun keypti skip frá Spáni, og eins og hann sagði framkvæmdastjórinn, þá álpuðust þeir til að skrá það á Íslandi þegar það kom til landsins. Þá fóru einhverjar vikur í að fá skoðanir og leyfi og hitt og þetta,“ segir Hilmar.
Málið hefði horft öðruvísi við ef Björgun hefði haft skipið á spænska flagginu í þá þrjá mánuði sem heimilt væri áður en það var skráð hér. „Þá hefði verið hægt að klára sumarið og fara svo í að skipta um flagg.“
Fastir í Landeyjahöfn
Þannig að þótt dýpkunarskipið hafi komið til landsins í júlí í fyrra segir Hilmar það ekki hafa byrjað dýpkunarframkvæmdir á Ísafirði fyrr en 22. desember 2022.
„Svo voru þeir fram á vor og komu síðan í sumar í einhverjum pörtum, einhverjar vikur í einu. En þegar veður fór að versna og það fór að safnast í Landeyjahöfn fóru þeir þangað og eru búnir að vera fastir þar síðan,“ segir hafnarstjórinn.
Svipaður fjöldi á næsta ári
Að sögn Hilmar eru þegar bókaðar 205 komur skemmtiferðaskipa á næsta ári. Í fyrra hafi verið skráðar 206 komur en þær þó aðeins orðið 187, fyrst og fremst vegna þess að ekki reyndist unnt fyrir öll skipin að leggjast að bryggju. Sumarið sem leið hafi verið mjög gott og ekki nema tvö skip sem ekki hafi komist upp að vegna veðurs.