Mikill hugur er í norskum útvegsmönnum um þessar mundir, en alls hefur verið samið um smíði 15 stórra fiskiskipa fyrir norskar útgerðir að verðmæti 2,3 milljarða norskra króna, jafnvirði samtals 48 milljarða íslenskra.
Skipin verða afhent á þessu og næsta ári. Flest þeirra eru smíðuð í Noregi en fjögur í Danmörku og tvö í Tyrklandi. Lengsta skipið er rúmlega 80 metrar og dýrustu skipin kosta rúmlega 5 milljarða íslenskra króna.
Í frétt í Fiskeribladet/Fiskaren kemur fram að langflest þessara skipa eru tog- og nótaskip til uppsjávarveiða en afkoma í þeirri grein hefur verið mjög góð undanfarin ár.
Á meðan þessu fer fram í Noregi er aðeins eitt stórt fiskiskip í smíðum fyrir Íslendinga en það er Heimaey VE í skipasmíðastöð í Chile. Samið var um smíði þess árið 2007 og er það væntanlegt á næsta ári.