Þótt kvótaárinu 2022/2023 sé lokið í flestum tegundum og nýtt hafið er öðruvísi umhorfs hjá þeim útgerðum sem eru hvað öflugastar í uppsjávartegundum. Þar er miðað við almanaksárið og sama hvert litið er hafa veiðar á uppsjávarfisk gengið eins og í sögu á árinu. Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju á Eskifirði, segir markaðina hins vegar viðkvæma um þessar mundir en hátt verð er á mjöl og lýsi.

„Það er auðvitað bullandi síldarvertíð og allt gott að frétta héðan af Eskifirði. Fiskveiðiárinu er hvergi lokið í uppsjávarveiðum og fram að þessu höfum við ekki getað kvartað. Makríllinn veiddist að talsverðu leyti innan lögsögunnar á þessu ári. Loðnuvertíðin gekk vel og kolmunninn kom líka sterkur inn. Við höfum náð öllu okkar en eigum þó enn eitthvað eftir af síld en það á ekki að taka langan tíma að ná því,“ segir Hlynur í samtali við Fiskifréttir í gær. Þá var Aðalsteinn Jónsson SU að halda úr höfn eftir að hafa landað 1.100 tonnum og næstur inn til löndunar var Jón Kjartansson SU með svipað magn.

Hlynur Ársælsson rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju. FF MYND/ÞORGEIR
Hlynur Ársælsson rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju. FF MYND/ÞORGEIR
© Þorgeir Baldursson (.)

„Við eigum líka dálítið eftir í kolmunna sem við klárum núna í haust og vonandi í íslenskri lögsögu. Síldina klárum við líklega í næstu viku. Hún er hérna rétt fyrir utan og þetta hráefni sem við fáum inn í húsið núna verður ekki betra. Það má segja að það séu tvö veiðisvæði hérna fyrir austan, það er að segja í Héraðsflóa og Bakkaflóa og síldin hefur verið öllu stærri í Bakkaflóa þannig að við höfum lagt meiri áherslu á veiðarnar þar ,“ segir Hlynur.

Talsverð birgðastaða

Þrátt fyrir að vera gott hráefni fer aflinn ekki að öllu leyti til manneldis. Hlynur segir markaðina þrönga og á sama tíma er mjöl- og lýsisverð mjög hátt. Ákveðinn hluti aflans fer því í bræðslu og annað til vinnslu. Frystigeymslupláss sé líka takmarkað og núna styttist enn fremur og vonandi í næstu loðnuvertíð. Birgðastaðan sé talsvert mikil af uppsjávartegundum og salan hægari en oft áður.

Uppsjávarhús Eskja er eitt hið fullkomnasta sem þekkist og hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Það er um 7.000 fermetrar að flatarmáli og vinnslugetan nálægt 1.000 tonn á sólarhring. Það var hannað og smíðað að stærstum hluta af Skaganum 3X og tekið í notkun 2016. Skaginn 3X er nú hluti Baader. Fjölmargir aðilar úr uppsjávarvinnslu víða um heim hafa boðað komu sína til Eskifjarðar til að skoða og kynnast verksmiðjunni.