Alls 38 starfsmönnum tveggja fiskþurrkunarfyrirtækja hefur verið sagt upp störfum vegna söluerfiðleika í Nígeríu. Öllum almennum starfsmönnum Haustaks í Fellabæ, 15 manns, var sagt upp um mánaðamótin og fyrirtækið metur nú hvort loka þurfi starfstöðinni vegna þess hve illa gengur að selja skreið og þurrkaða þorskhausa til Nígeríu. Þá var 23 sagt upp hjá Frostfiski í Ólafsvík af sömu ástæðu. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Steingrímur Leifsson framkvæmdastjóri Frostfisks segir að fyrirtækið hafi safnað birgðum um alllangt skeið vegna sölutregðunnar í Nígeríu. “Við erum bjartsýnismenn og trúðum því að þetta myndi lagast en þegar mánuðirnir líða hver af öðrum án þess að neitt gerist þurfum við að hægja á og stoppa. Um leið og ástandið breytist drögum við uppsagnirnar til baka og höldum áfram.”

Víkingur Víkingsson, framkvæmdastjóri Haustaks, segir að staðan sé mjög slæm í Nígeríu og kaupendur þurfi að útvega gjaldeyri á svörtum markaði. „Bankagengið er um 200 nærur í dollar en svartamarkaðgengið eru 320 nærur í dollar. Kaupmátturinn í Nígeríu hefur náttúrlega dalað mikið eftir að olíuverðið hrundi,“ segir Víkingur.

Haustak rekur einnig þurrkun á Reykjanesi og Víkingur segir að hún standi betur enda nær því hráefni sem fellur til.

Sjá nánar á vef RÚV.