Undirbúningur er hafinn fyrir sjómannadaginn sem haldinn verður hátíðlegur í Reykjavík sunnudaginn 4. júní nk.
Það eru Brim, Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð sem standa að hátíðarhöldunum við höfnina í Reykjavík þar sem öllu er tjaldað til og engu til sparað.
„Sjómannadagurinn er dagur okkar allra og skipar hann stóran sess meðal landsmanna. Hér áður fyrr skipti miklu fyrir sjómenn að fá þennan dag, enda eru þeir oft fjarri heimahögum þegar flestir eiga frí. Sjómönnum finnst líka mikil upphefð að eiga sérstakan dag og geta kynnt líf sitt og störf fyrir almenningi, hvernig við nýtum sjóinn sem matarkistu og til flutninga svo eitthvað sé nefnt“, segir Aríel Pétursson, stjórnarformaður Sjómannadagsráð.
Samstarfssamningur við skipuleggjendur dagsins var undirritaður á dögunum í húsakynnum Brims auk þess sem vinnsluaðstaðan var skoðuð.
„Við hjá Brim erum mjög stolt að taka þátt í hátíðarhöldunum á sjómannadaginn. Þetta er dagurinn þar sem öll fjölskyldan fer saman niður að höfn og sér margt áhugavert og skemmtilegt tengt sjávarútveginum. Já og auðvitað fiskisúpan vinsæla sem kokkurinn okkar snarar fram í tilefni dagsins og gestir fá að smakka.” segir Rebekka Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Brims.
Sjómannadagurinn er einn af stærri hátíðardögunum í Reykjavík á ári hverju, enda leggja að jafnaði tugir þúsunda gesta leið sína á hafnarsvæðið við Gömlu höfnina og Grandagarð ár hvert.
„Við ætlum að gera daginn eftirminnilegan fyrir gesti og gangandi enda tókst hann einstaklega vel í fyrra þar sem hann fór fram í rjómablíðu og metfjöldi gerði sér ferð út á Granda og naut alls þess sem var í boði,” segir Helgi Laxdal, sviðsstjóri hjá Faxaflóahöfnum.
Nú eru um 3 mánuðir til stefnu og er undirbúningurinn hafinn. Fyrirtækið Eventum hefur veg og vanda að skipulagningu viðburðanna og segir Anna Björk Árnadóttir, framkvæmdastýra að áhersla verði sett á að bjóða eitthvað skemmtilegt og spennandi fyrir alla fjölskylduna, enda sé sjómannadagurinn fjölskylduhátíð fyrst og fremst.