ODE í Noregi, áður þekkt sem Gadus Group, stefnir að eldi á 25 þúsund tonnum af þorski á ári. Fyrirtækið opnaði í byrjun árs sína sjöundu sjókvíaeldisstöð fyrir þorsk í Jonskjær í Nordmøre. Nýlega gekk það frá kaupum á hinni byltingarkenndu UNO fiskvinnsluvél frá Vélfagi á Akureyri. Þetta er fyrsta vélin sem notuð verður af eldisfyrirtæki.

Þorskeldi vaxandi grein í Noregi

Höfuðstöðvar ODE eru í Álasundi. Ola Kvalheim forstjóri segir að fyrirtækið, sem hóf þorskeldi 2019, slátri nú þegar eldisþorski daglega, 52 vikur ársins. Fyrirtækið er með samþættan rekstur í klak- og seiðastöðvum ásamt sjö áframeldisstöðvum í sjó kvíum. ODE hefur nú þegar alið þrjár kynslóðir eldisfisks og fengið glimrandi góðar viðtökur úti á markaðnum.

Frá einni af sjókvíaeldistöðvum ODE.
Frá einni af sjókvíaeldistöðvum ODE.

Fyrsta slátrun ODE fór á markaðinn í nóvember 2022 og gekk allt að óskum strax frá upphafi. Yfir 18 mánaða tímabil var dánartíðni í kvíum 4%. Í júní 2023 urðu tímamót í eldinu þegar niðurstöður fengust í samstarfi við rannsóknastofnunina Møreforskning hvernig ljós hefur áhrif á þroskaferil eldisþorsks. Í ágúst 2023 var hlutfall eldisþorsks í útflutningi á þorskafurðum í Noregi 14% en árið áður var það ekkert. Þorskeldi er mjög vaxandi grein í landinu.

ODE var stofnað af Ola Kvalheim og Tor Olav Seim og er í eigu þeirra og De Clerq fjölskyldunnar. Á síðustu fimm árum hefur fyrirtækið byggt upp samfellda keðju fyrir þorskeldi í sjókvíum, allt frá klakstöðvum til seiðaeldisstöðva og sjókvíaeldis. Fyrirtækið vinnur afurðir í flök, hnakkastykki, bita, blokkir og heilan fisk með eða án hauss. Það nýtir enn fremur lifur, roð, hausa og hryggi og býr til verðmæti úr þeim. ODE hefur frá stofnun vaxið í 150 manna fyrirtæki sem mun skaffa 50 milljónir matarskammta úr þorski á yfirstandandi ári.

UNO í fyrsta sinn til fiskeldis

Samningur Vélfags og ODE markar tímamót fyrir norðlenska tæknifyrirtækið. Með þessu stígur Vélfag sín fyrstu skref inn í fiskeldisgeirann en áður hefur fyrirtækið selt UNO fiskvinnsluvélar til fiskvinnslunnar Kambs í Hafnarfirði og tvær vélar til norsku Bluewild útgerðarinnar fyrir nýsköpunartogarann Ecofive. Salan opnar dyr að nýjum tækifærum fyrir Vélfag innan fiskeldis. UNO fiskvinnsluvélin er einkar mannaflssparandi en hefur sýnt sig að skila um leið hágæða vinnslu. Vélin flakar, beinhreinsar og roðflettir. Í næsta áfanga í þróun vélarinnar mun hún líka hausa og bjóða þannig upp á hámarksnýtingu hráefnis, gæði og nýtingu aukaafurða.

UNO fiskvinnsluvélin komin í gám.
UNO fiskvinnsluvélin komin í gám.