Ný könnun á mataræði Íslendinga leiðir í ljós að fiskneysla hérlendis hefur lítið sem ekkert breyst frá því að sambærileg könnun var gerð fyrir rúmum áratug.
Ein helsta niðurstaða könnunarinnar er sú að fiskneysla stendur í stað á milli kannana en einnig að hún er eins og áður minnst í yngsta aldurshópnum sem hún náði til, eða fólks á aldrinum 18-39 ára. Að meðaltali borða Íslendingar 315 grömm af fiski á viku.
Það sem sérstaklega er dregið fram í niðurstöðum rannsakenda er að fiskneysla er sérstaklega lítil meðal yngsta aldurshóps kvenna, en einungis eitt prósent þátttakenda í þessum hópi nær að fylgja ráðleggingum um 2–3 fiskmáltíðir á viku (375 grömm á viku). Rúmlega þriðjungur þátttakenda náði því markmiði.
Karlar eru líklegri til að fylgja ráðleggingum um fiskneyslu, en ekki aðeins vegna stærri skammta heldur einnig vegna tíðari fiskneyslu.
Mest er borðað af ýsu og þorski (42%), þá feitum fiski, svo sem laxi og bleikju, (37%) og loks öðrum fiski og sjávarfangi (18%), en minnst er borðað af harðfiski (3%). Ráðlagt er að ein af fiskmáltíðum vikunnar sé feitur fiskur, eins og t.d. lax og bleikja, en aðeins um 12% þátttakenda náðu því viðmiði. Um fimm prósent þátttakenda segjast aldrei borða fisk eða skelfisk sem aðalrétt.
Þau 5% sem neyttu minnst af fiski borðuðu tæplega 80 grömm á viku en þau 5% sem neyttu mest af fiski neyttu meira en 620 gramma á viku.
Lítið sem ekkert breyst
Eins og áður sagði virðist fiskneysla standa í stað. Í niðurstöðum könnunarinnar 2010-2011 segir „fiskneysla er svipuð að magni og hún var árið 2002.“ Því virðist fiskneysla hérlendis hafa verið áþekk allt frá aldamótum.
Þá sýndu gögn, eins og nú, að mikill munur var á fiskneyslu eftir aldurshópum og yngra fólkið (18-30 ára) borðaði helmingi minna af fiski en þeir eldri (61-80 ára). Samkvæmt ráðleggingum um mataræði er lagt til að fólk borði a.m.k. tvær fiskmáltíðir í viku en aðeins helmingur þátttakenda náði því markmiði á þeim tíma.
Í ráðleggingum um mataræði er mælt með því að fiskur sé á borðum tvisvar í viku eða oftar. Ef miðað er við algengan skammt af fiski, sem er 150 grömm, þá ætti vikuleg neysla fisks að samsvara 300 grömmum af fiski í það minnsta. Nú og fyrr borða konur á aldrinum 18-30 ára aðeins 26 grömm af fiski á dag að meðaltali sem samsvarar einni fiskmáltíð á sex daga fresti.
Embætti landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands sáu sameiginlega um framkvæmd og úrvinnslu könnunarinnar. Alls tóku 822 einstaklingar þátt. Könnunin fór fram frá september 2019 til ágúst 2021.