Móttaka hráefnis hjá fiskmjölsverksmiðjum á Íslandi hefur dregist saman um tæp 70% frá árinu 2002 og hefur hún ekki verið minni í áratugi. Þrír stærstu aðilar í greininni tóku til vinnslu um 63% af öllum uppsjávarfiski sem fór til bræðslu á síðasta ári að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Á árinu 2009 tóku fiskmjölsverksmiðjur á Íslandi á móti um 490 þúsund tonnum til bræðslu samkvæmt upplýsingum sem Fiskifréttir fengu frá Félagi íslenskra fiskmjölsframleiðenda.

Síldarvinnslan í Neskaupstað ber höfuð og herðar yfir aðra fiskmjölsframleiðendur. Síldarvinnslan starfrækir verksmiðjur á þremur stöðum á landinu; í Neskaupstað, á Seyðisfirði og í Helguvík. Samanlagt tóku þessar þrjár verksmiðjur á móti um 153 þúsund tonnum á árinu 2009, eða 31,2% af heildinni. Næstur í röðinni kemur HB Grandi en félagið er með verksmiðjur á Vopnafirði og Akranesi fyrir utan lítilsháttar bræðslu í Reykjavík. Samanlagt tók HB Grandi á móti um 86.500 tonnum, eða 17,7% af heildinni. Þriðja félagið er Ísfélagið í Vestmannaeyjum sem rekur verksmiðjur í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Alls voru unnin 71.200 tonn hjá Ísfélaginu eða 14,5% af heildinni.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.