„Að sjálfsögðu er þetta alltaf tjón en við erum að vinna í því að leysa það þannig að við erum ekki að örvænta á þessu stigi,“ segir Hörður Þórhallsson, formaður Veiðifélags Eystri Rangár sem varð á dögunum fyrir því að tapa um sex hundruð þúsund pokaseiðum.

„Þetta voru bara mannleg mistök starfsmanns varðandi að hleypa réttu hitastigi á seiðin,“ útskýrir Hörður óhappið sem varð í seiðaeldisstöð við Laugarvatn. Seiði á þessu stigi eru á bökkum og voru þau útsett fyrir of miklum hita á viðkvæmum tíma að sögn Harðar.

Áttu að notast í sleppingar á næsta ári

„Þetta var bara mjög óheppilegt en við brugðumst mjög hratt við og erum búnir að endurskoða ferla og merkja mun betur alla krana og þess háttar. Því miður þarf maður stundum að læra af mistökunum á dýran hátt en við gripum strax til aðgerða þannig að þetta komi ekki fyrir aftur,“ segir Hörður.

Að sögn Harðar á þetta óhapp ekki að koma í veg fyrir að Veiðifélag Eystri Rangár geti haldið sínu striki með þær seiðasleppingar sem eru grundvöllur laxveiða í ánni. Seiðin sem drápust átti að nota í sleppingar árið 2026. „Við erum með plön í gangi að vinna okkur út úr því,“ segir hann.

Leita aðstoðar félaga sinna í Ytri-Rangá

Umrædd sex hundruð þúsund seiði voru ekki öll pokaseiðin í stöðinni. Því drapst ekki allt. „Þetta voru afföllin. Það fóru ekki öll seiðin,“ segir Gunnar.

„Við erum að vinna að lausn á málinu og þetta hefur engin áhrif á þetta sumar. Það verða sleppingar í sumar fyrir næsta sumar og þetta hafði ekki áhrif á þau seiði sem eru að fara núna í ána sem við erum síðan að veiða á árinu 2026,“ undirstrikar Hörður.

Fulltrúar Veiðifélags Eystri Rangár hafa meðal annars rætt við félaga sína í Ytri-Rangá um aðstoð til að fylla að einhverju leyti upp í gatið enda séu þeir með sama laxastofninn.

Ekki hægt að tryggja laxaseiðin

„Vil viljum trúa því að við getum leyst þetta en þetta er auðvitað óskaplega óheppilegt og leiðinlegt,“ segir Hörður.

Veiðifélagið var ekki tryggt fyrir þessu tjón og ber því skaðann sjálft. „Það er ekki boðið upp á tryggingar í þessu, því miður,“ segir Hörður sem kveðst ekki geta sagt á þessu stigi hvert tjónið verði á endanum í krónum og aurum. „Við erum ekkert á leiðinni á hliðina en að sjálfsögðu er þetta fjárhagslegt tjón.“