Hafrannsóknastofnun hefur frá árinu 2015 merkt makríl á handfærabátum frá Ólafsvík og er fjöldi merktra fiska við Ísland nú orðinn um 9.600 talsins. Merkingarnar fara fram í samstarfi við Norðmenn, sem sjálfir merkja árlega nokkra tugi þúsunda fiska við Írland í sumarbyrjun. Merkingar við Ísland hafa gefið upplýsingar um far makríls austur yfir Atlantshaf á haustin en lengri tímaröð RFID-merkinga Norðmanna var í fyrsta skipti í ár nýtt við stofnstærðarmat á makríl í Norður-Atlantshafi.
Makríllinn er merktur með rafaldskennimerkjum (RFID, radio-frequency identification) sem skynjarar í fiskvinnslum víða um Norður-Atlantshaf nema þegar merktir fiskar eru í lönduðum afla. Slíkir skynjarar eru nú til staðar í nokkrum verksmiðjum hérlendis, og þeir settir upp í samstarfi við útgerðir veiðiskipanna.
Sigurður Þ. Jónsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að áætlanir um merkingar á makríl í sumar hafi ekki staðist, einungis hafi tekist að merkja 3.900 fiska en stefnt var að því að merkja 10.000 fiska. Ástæður þess að áætlanir stóðust ekki voru að makrílveiðarnar við Vesturland í sumar þróuðust með öðrum hætti en á fyrri vertíðum. Óhagstætt veður setti líka strik í reikninginn.
Merkt frá 2011
Frá árinu 2011 hafa Norðmenn merkt makríl árlega við Írland með rafaldskennimerkjum, en í fyrri merkingum voru notuð stálmerki sem endurheimtust á segla í vinnslum. Hluti þessara merkja hefur endurheimst við Ísland. Í ár voru niðurstöður þessa verkefnis notaðar í fyrsta sinn til að styðja við mat á stofnstærð makríls. Íslendingar hófu svipaðar merkingar á makríl hér við land árið 2015.
Norðmenn hafa leigt uppsjávarskip í þetta verkefni í einn mánuð á vorin. Makríllinn er veiddur á handfæri og sérhæfður búnaður er um borð fyrir móttöku makrílsins og góð aðstaða fyrir merkingar. Um 20 til 55 þúsund makrílar eru merktir á hverju vori og í heild er búið að merkja ríflega 300 þúsund makríla með þessari tegund merkja.
Merkið sjálft sést ekki þegar makríllinn er veiddur en víða hefur verið komið fyrir sérstökum lesurum eða skönnum við færibönd í uppsjávarfrystihúsum hjá helstu veiðiþjóðum. Skannarnir finna merkta fiska, lesa merkin rafrænt og senda upplýsingar sem þau hafa að geyma sjálfkrafa í gagnabanka.
Um 20 verksmiðjur í Noregi, Skotlandi, Íslandi, Færeyjum og Danmörku eru með skanna en um 20-25% af öllum makrílafla í Norður-Atlantshafi fara í gegnum þessar verksmiðjur. Skannar eru í þremur verksmiðjum hér á landi, verksmiðju HB Granda á Vopnafirði, verksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og Skinney-Þinganess á Höfn í Hornafirði. Í heild hafa merki fundist í ríflega 2.400 fiskum.
Tæplega 1.200 merki hafa endurheimst í vinnslum í Noregi, tæplega 900 í Skotlandi og ríflega 400 merki við Ísland. Fæst merki hafa endurheimst við Færeyjar og Danmörk. Flestir makrílar veiðast strax á fyrsta ári merkingar en fáeinir veiðast allt að fjórum til fimm árum eftir að þeir voru merktir.
Mikilvægt er að merkja makrílinn á hrygningarslóð því þar kemur allur stofninn saman. Síðan er hægt að fylgjast með því hvernig hann dreifist í ætisgöngum eftir því sem merkin endurheimtast. Aðalmarkmiðið með merkingunum er þó að afla gagna til að styðja við stofnmat á makríl.
Samstarf við Norðmenn
Í framhaldi af þessu kviknaði áhugi íslenskra vísindamanna á því að kanna hvaða leið makríllinn fer til baka á hrygningarslóð frá Íslandi. Fer hann beinustu leið vestan við Færeyja suður á bóginn eða tekur hann á sig krók til Noregs? Ráðist var í það, í samstarfi við Norðmenn, að merkja makríl hér við land í ágúst árið 2015. Þá náðist að merkja tæplega þúsund fiska sem veiddir voru á handfæri við Snæfellsnes. Í ágúst í fyrra var farið í leiðangur á bátnum Geisla SH og þá tókst að merkja tæplega 5.000 makríla.
Góðar endurheimtur hafa verið á merktum makrílum við Ísland. Hingað til hafa 98 merktir fiskar verið skannaðir á vinnslustað. Eins og við var að búast var megnið af merkjunum endurheimt eftir veiðar íslenskra skipa úti af Austfjörðum um hálfum mánuði til 7 vikum eftir merkingu, eða 42 merki. Við Noreg hafa 24 merki verið innheimt og innan við 20 merki við Skotland. Örfá merki hafa fundist í makríl veiddum við Færeyjar.
Þetta eru áhugaverðar niðurstöður og gefa meðal annars hugmynd um ferðahraða makríls frá Íslandi. Til dæmis endurheimtust flestir fiskar við Noreg um það bil tveim mánuðum eftir að þeir voru merktir við Ísland, og sá fyrsti þeirra um ríflega 5 vikum eftir merkingu.
Merkingar á makríl hafa gefið það góða raun, að ekki er loku fyrir það skotið að merkingar á öðrum tegundum komi til greina, eins og t.d. á norsk-íslenskri síld.