Úkraínustjórn hefur komið þeirri beiðni á framfæri til norskra stjórnvalda að hafnbann verði sett á öll rússnesk fiskiskip í norskum höfnum. Frá þessu var greint í danska viðskiptablaðinu Børsen.

Í apríl var sett hafnbann á skip sem sigla undir rússneskum fána í norskum höfnum og var það hluti af viðbrögðum Norðmanna við innrás Rússa í Úkraínu í febrúar síðastliðnum. Undanskilin frá banninu voru þó fiskiskip og hefur þeim verið heimilt að koma til norskra hafna í viðskiptalegum eða vísindalegum tilgangi.

Í bréfi sem sent hefur verið norskum stjórnvöldum halda úkraínsk stjórnvöld því fram að með því að veita rússneskum fiskiskipum undanþáguna sé stuðlað að tekjuinnkomu fyrir Rússa til að halda áfram hernaði í Úkraínu auk þess sem fiskiskipin geti verið notuð til að smygla varningi til og frá Rússlandi og að þau geti verið notuð til njósna á vegum rússneska ríkisins.

Ólíkt Noregi innleiddi ESB algjört hafnbann á rússnesk skip í aðildarlöndunum.

Vidar Ulriksen, viðskipta-, iðnaðar- og sjávarútvegsráðherra Noregs, segir að undanþágan snúist ekki um efnahagslega afkomu heldur fiskveiðistjórnun.

„Það er mjög mikilvægt fyrir Noreg að standa vörð um sjálfbærni fiskistofnanna úti fyrir Norður-Noregi. Af þeirri ástæðu var rússneska fiskiskipaflotanum veitt undanþága frá banninu,“ segir Ulriksen.