Fræðingar Hafrannsóknastofnunar segja ufsa sem synda nú um í stórri torfu í Hafnarfjarðarhöfn hafa klakist úr eggjum í vor.
Þetta kemur fram í færslu á Facebooksíðu Hafrannsóknastofnunar.
„Það eru ekki bara falleg jólaljós í Hafnarfirðinum sem gleðja augað nú um stundir heldur hefur óvenju þétt ufsatorfa gert sig kærkomna í firðinum fagra. Hvort vera þeirra í höfninni tengist komu frelsarans skal ósagt látið en ljóst er að allur þessi fjöldi færi langt með að metta 5000 manns.
Fræðingar Hafrannsóknastofnunar segja ufsana hafa klakist úr eggjum í vor og séu því um hálfs árs gamlir. Þessi fjöldi ufsa er óvenjumikill en ufsaseiði á fyrsta ári eru þó mjög algeng í höfnum allt í kringum landið. Uppeldissvæði ufsa eru að jafnaði grynnra en t.d. þorsks og ýsu.
Það vakti einnig athygli að þessi þétta torfa var alveg innst í höfninni en ekki er á hreinu af hverju svo er. Ýmislegt kemur til greina. Þarna eru t.d. sterkir ljóskastarar sem mögulega laða ufsann að, mögulega er þarna affall frá frá bænum sem skapar aðstæður sem ufsinn sækir í og kannski er hann að forðast þá sem vilja éta hann t.d. skarfa, endur, seli og hvali. Mikið er af fiskiöndum (toppöndum og gulöndum) í höfninni, einhverjir selir og síðan hafa hnúfubakar haldið sig í mynni Hafnarfjarðar undanfarnar vikur,“ segir í færslu Hafrannsóknastofnunar.