Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 5 milljörðum króna í september. Á þann kvarða er um stærsta septembermánuð frá upphafi að ræða. Á fyrstu 9 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 33,4 milljarða króna, sem einnig er met. Það er um 22% aukning frá sama tímabili í fyrra. Aukningin er nokkuð meiri sé tekið tillit til gengisbreytinga, eða rúm 29%. Þannig var gengi krónunnar að jafnaði 4% sterkara á fyrstu 9 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum um vöruskipti í september sem Hagstofan birti nýlega. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segir frá þessu.


Hækkun afurðaverðs hefur áhrif

Í ofangreindum bráðabirgðatölum fyrir september er einungis að sjá útflutningsverðmæti eldisafurða í heild, en ekki sundurliðun á einstaka tegundir eða útflutning að magni til. Vafalaust má rekja þessa myndarlegu aukningu í september til laxeldis, líkt og mánuðina á undan. Þannig jókst útflutningsverðmæti á laxi um 30% á milli ára á föstu gengi á fyrstu 8 mánuðum ársins. Hlutdeild lax af útflutningsverðmætum eldisafurða í heild var um 83% á fyrstu 8 mánuðunum samanborið við tæp 77% á sama tímabili í fyrra. Þessa aukningu í útflutningsverðmætum má nánast alfarið rekja til hækkunar afurðaverðs, enda stóð útflutt magn svo til í stað á milli ára. Þannig hefur markaðsverð á laxi náð sögulegum hæðum á árinu og hefur að jafnaði verið hærra á þessu ári en það hefur áður verið. Hækkun afurðaverðs er vissulega ekki bundið við laxeldi, enda í takti við aðrar verðhækkanir i flestum geirum. Þar með talið á flestum kostnaðarliðum eldisfyrirtækja við framleiðslu og útflutning.

Á fyrstu 8 mánuðum ársins hefur útflutningsverðmæti silungs, sem er að stærstum hluta bleikja, dregist saman um 22% á föstu gengi. Það má alfarið rekja til samdráttar í útfluttu magni, en hækkun afurðaverðs vegur þó eitthvað upp á móti. Svipaða sögu er að segja af Senegalflúru, sem er einn verðmætasti matfiskur í heimi. Útflutningsverðmæti Senegalflúru hefur dregist saman um tæp 5% á föstu gengi á sama tíma og samdráttur í magni er rúm 14%.

Að lokum má nefna frjóvguð hrogn sem er verðmæt hátækniframleiðsla. Þar hafa útflutningsverðmæti aukist um 9% á föstu gengi á sama tíma og útflutningur að magni til hefur skroppið saman um tæp 2%. Það er því nokkuð ljóst að hækkun afurðaverðs hefur verið ráðandi í aukningu útflutningsverðmæta eldisafurða á fyrstu 8 mánuðum ársins.