Útflutningsverðmæti þorskafurða tvöfölduðust milli áranna 1981 og 2011, fóru úr 340 milljónum bandaríkjadala í 680 milljónir dollara.

Þetta gerðist  þrátt fyrir að þorskaflinn milli þessara ára hafi minnkað úr 460.000 tonnum í 180.000 tonn eða um 60%.

Það þýðir að útflutningsverðmæti á hvert kíló landaðs afla fór úr 0,7 dollurum í 3,8 dollara sem er rúmlega fjórföldun.

Þetta kemur fram í greiningu Sjávarklasans sem birt er á vef hans .

Tilgreindar eru nokkrar ástæður fyrir þessari þróun. Nýting aflans hefur aukist þökk sé bættri vinnslutækni. Nýting aukaafla hefur stóraukist.  Þar má m.a.  nefna afurðir úr þorskhausum og aukin lýsisframleiðsla. Virðisaukinn í framleiðslunni hefur aukist, í stað frystra afurða skapar ferskfiskur og saltfiskur stóran hluta verðmætisins. Nefnt er sem dæmi að árið 1981 skapaði heilfrystur fiskur og fryst flök þrjá fjórðu af verðmætinu en árið 2011 var hlutur þessarar vöru aðeins einn fjórði.

Svo má ekki gleyma að fiskverð á alþjóðlegum mörkuðum hækkað á þessu tímabili.