Yfir 2000 manns mættu á boðaðan fund á Austurvelli til að mótmæla breytingunum á lögum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld sem ríkisstjórnin hyggst keyra í gegnum þingið þrátt fyrir varnaðarorð fjölmargra umsagnaraðila. Fundurinn samþykkti, með miklum meirihluta, ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að vanda til verka við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar og að um það sé haft víðtækt samráð.
Það setti svip á fundinn að hópur manna púaði ítrekað á ræðumenn og reyndi koma í veg fyrir að til þeirra heyrðist og varna þeim þannig málfrelsis.
Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ lagði áherslu á að vandað yrði til verka við gerð frumvarpanna og sagði ennfremur:
„Verði frumvörpin að lögum munu þau draga máttinn úr sjávarútveginum og rýra möguleika hans til fjárfestingar, þróunar og aukinnar verðmætasköpunar. Það mun koma niður á starfsfólki, fjölda fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi og sveitarfélögum um land allt. Síðast en ekki síst verða afleiðingarnar þær að lífskjör fólksins í landinu skerðast."