Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur samið við Elvar Þór Antonsson líkanasmið frá Dalvík um smíði líkans af Spánverjunum svokölluðu, Kaldbak EA 301 og Harðbak EA 303. Það óvenjulega við líkanið er að þótt það sé einungis eitt stendur það fyrir bæði tvíburaskipin sem smíðuð voru á Spáni fyrir Útgerðarfélag Akureyringa og komu til heimahafnar fyrir bráðum 50 árum, Kaldbakur EA 301 þann 19. desember 1974 og Harðbakur EA 303 þann 29. mars 1975.

Undirritað um borð í Kaldbak EA 1

Samningurinn var undirritaður um borð í Kaldbak EA 1 og viðstöddu fjölmenni. Við það tækifæri fór Sigfús Ólafur Biering Helgason safnstjóri yfir sögu skipanna. 8. febrúar 1972 kom fyrsti skuttogari Ú.A., Sólbakur EA 5, til heimahafnar og endurnýjun skipastóls Ú.A. var hafin.

„Samhliða viðræðum og samningum við Slippstöðina á Akureyri um smíði tveggja nýrra skuttogara fyrir Ú.A. þá fréttist af tveimur nýlegum verksmiðjutogurum í Færeyjum sem reyndust falir. Töluverðan tíma gekk að ganga frá samkomulagi um kaupin á Stellunum og á sama tíma var Útgerðarfélagið komið í viðræður við ríkið um kaup á tveimur 1.000 tonna togurum sem verið var að hefja smíði á í borginni Vigo á Spáni.

Samningar eru samningar

Nú gerðust hlutirnir hratt. Slippstöðin rifti samningunum um smíði togarana fyrir Ú.A. og á sama tíma gekk saman með kaupin á Stellunum, og í ljósi þess þá vildu framkvæmdastjórar Ú.A. þeir Gísli Konráðsson og Vilhelm Þorsteinsson bakka út úr þessu verkefni um togarana frá Spáni. Töldu þeir Gísli og Vilhelm að Ú.A. gæti ekki og hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til að endurnýja skipaflota sinn svo skart. En samningar eru samningar og þegar þeir eru gerðir skulu þeir standa, og með þrautseigju þeirra félaga, Gísla og Vilhelms sem voru einstakir heiðursmenn, stuðningi bæjar og ríkis, Landsbankans auk mikils velvilja bæjarbúa á Akureyri og samtakamæti tókst þetta allt með miklum sóma, og söguna er á eftir kom þekkja allir,“ sagði Sigfús.

Mesta blómaskeið í sögu Ú.A.

50 ár verða síðan Stellurnar, Svalbakur og Sléttbakur, komu og 19. desember á næsta ári verða líka 50 ár síðan Kaldbakur EA 301 lagðist að Togarabryggjunni á Akureyri í fyrsta sinn. Sigfús segir að með skipslíkönunum sé verið að endurskapa og endurvekja verðmæta sögu sem tengist mesta blómaskeiði í sögu Ú.A. Samkvæmt samningnum á smíði líkansins að vera lokið eigi síðar en 25. október á næsta ári, fullbúið og merkt Kaldbak EA 301 á öðrum kinnungnum og Harðbak EA 303 á hinum.