Jón Klein Olsen, aðstoðarlögreglustjóri í Færeyjum, segir að tveggja sé nú saknað úr sextán manna áhöfn færeyska línubátsins Kambs sem sökk nú í morgun. Hinum fjórtán hafi verið bjargað.
Skip sem voru á sömu slóðum og Kambur þegar skipið sökk taka þátt í leit að mönnum tveimur og sérútbúin Challenge-flugvél frá danska hernum er sögð á leiðinni til að aðstoða við leitina. Veður er slæmt á svæðinu og vonir um að finna mennina á lífi fara dvínandi.
Sá síðasti af mönnunum fjórtán sem bjargað var með þyrlu frá borði hins sökkvandi skips var þar í þrjá klukkutíma áður en náðist að hífa hann upp.
Frá þessu segir meðal annars Færeyska útvarpið.
Uppfært: Vegna bilunar tók danska leitarflugvélin sem átti að koma til aðstoðar ekki á loft í Danmörku og kemur því ekki til leitar.