Veiðar á bláuggatúnfiski mega hefjast um næstu mánaðamót en frestur til að sækja um veiðarnar rennur út 8. júlí næstkomandi. Undanfarin ár hafa veiðarnar verið á hendi áhafnarinnar á Jóhönnu Gísladóttur GK. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir að fyrirtækið hyggist sækja um leyfi til veiðanna líkt og undanfarin ár.
Pétur segir að veiðarnar hafi gengið vel fyrsta árið sem fyrirtækið stundaði þær árið 2014. Þá veiddust 140 fiskar. Síðan hefur veiðin verið minni með hverju árinu en þó dugað fyrir kostnaði við útgerð skipsins.
Yfirleitt hafa veiðarnar hafist snemma í ágúst en Pétur segir að þessi sinni verði farið seinna af stað eða í september. Farið er langt suður af landinu og kosturinn við að fara seinna af stað er sá að þá hefur túnfiskurinn náð að fita sig og er verðmætari vara. Ókosturinn er sá að þá getur allra veðra verið von.
45 tonn fyrir línuveiðar
Túnfiskafli íslenskra skipa var á árinu 2016 alls 6 tonn sem var verulegur samdráttur frá árinu áður þegar hann nam 37,4 tonnum. Bein sókn í túnfisk hófst eftir nokkurra ára hlé árið 2014 og nam aflinn þá rúmlega 28 tonnum og jókst hann um 7 tonn árið þar á eftir.
Íslendingar hafa leyfi fyrir einum línuveiðara á túnfiski og hefur Jóhanna Gísladóttir GK-557 verið með leyfið undanfarnar 3 vertíðir. Veiðarnar gengu mun verr í fyrra en fyrri árin tvö og veiddi skipið einungis 3,2 tonn. Annar túnfiskafli ársins kom meðafli við uppsjávarveiðar.
Á árinu 2017 er íslenskum skipum heimilt að veiða samtals 52,48 tonn af bláuggatúnfiski miðað við afla upp úr sjó. Af þeim heimildum verður 45 tonnum úthlutað til veiða með línu og 7,48 tonnum ráðstafað til að mæta áætluðum meðafla íslenskra skipa á bláuggatúnfiski.