Með hlýnandi sjó sækir túnfiskur æ norðar í hafið, ekki bara í átt til Íslands og Grænlands, heldur líka norður með ströndum Noregs. Nú hefur náðst myndskeið af túnfiski við Hamaröy í Norland-fylki í Norður-Noregi en þetta er það nyrsta sem þessi fisktegund hefur farið svo vitað sé í marga áratugi, að því er sérfræðingur norsku hafrannsóknastofnunarinnar segir í samtali við norska útvarpið (NRK).

Það fylgir fréttinni að myndatökumaðurinn hafi ekki gert sér grein fyrir því að þarna hefði fiskur að virði tvær milljónir íslenskra króna synt óáreittur framhjá honum. Sú fullyrðing er kannski ekki alveg skotheld, að minnsta kosti ef verðið fyrir þá túnfiska sem Jóhanna Gísladóttir GK veiddi á dögunum er haft til hliðsjónar, en þeir voru slegnir á 680.000 krónur stykkið að meðaltali.

Túnfiskveiðar við Noregi voru leyfðar á ný núna í ár eftir þriggja áratuga veiðibann. Kvótinn er 30 tonn og var honum úthlutað til eins báts að undangengnu hlutkesti. Á árunum milli 1950 og 1960 voru miklar túnfiskveiðar við Noreg og þá veiddust allt upp í 11.500 fiskar árlega, næstum eingöngu í herpinót.

Sjá myndskeiðið af túnfiskinum á sundi úti af Nordland, sem birt er á vef NRK.