Fiskifræðingar frá Náttúrustofnun Grænlands hafa birt lista yfir 269 fisktegundir sem vitað er um að hafast við í grænlenskri lögsögu, þar af hafa verið uppgötvaðar 57 áður óþekktar tegundir frá árinu 1992 þegar hliðstæður listi var síðast birtur.
Langflestar ,,nýju” tegundirnar eru djúpsjávarfiskar sem halda sig á 400 metra dýpi eða neðar. Þær eru flestar þekktar á öðrum hafsvæðum en tíu fisktegundir hafa ekki áður verið skráðar í bækur vísindamanna í heiminum svo vitað sé.
Óvíst er að hve miklu leyti hlýnun sjávar hefur stuðlað að fjölgun fisktegunda við Grænland síðustu árin en vitað er um nokkrar tegundir sem sennilega hafa borist þangað af þeim ástæðum. Þeirra á meðal eru skötuselur, laxsíld, lýsa og blágóma. Grænlenska útvarpið skýrði frá þessu.