Ákvörðun sveitarstjórnarinnar í Tromsø, stærsta bæjarfélagsins í norðanverðum Noregi, um að banna fiskeldi í opnum sjókvíum hefur valdið nokkrum usla. Umhverfissamtök fagna en eldisiðnaðurinn er undrandi.

Sveitarstjórnin í Tromsø lýsti þessu yfir í gær.

„Framtíðin í fiskeldi er á landi. Í Noregi höfum við möguleika á að gera það, og þess vegna eigum við að vera í fararbroddi,“ segir Jarle Heitmann, oddviti Verkamannaflokksins í sveitarstjórn Tromsø.

Hann segist, samkvæmt vefmiðlinum Fishupdate, reikna með því að þessi ákvörðun veki furðu, en eðlilegt hafi verið að Verkamannaflokkurinn styddi þessa tillögu, sem Græningjar lögðu fram í bæjarstjórn.

„Skoðanir eru skiptar, en þetta er í samræmi við áætlunina sem við samþykktum um helgina,“ sagði hann og vísar þar til áætlunar í loftslags- og umhverfismálum strandsvæðisins, en þar er að finna grundvöll að samþykkt sveitarstjórnarinnar um bann við sjókvíum.

Sveitarstjórnin hyggst nú hefja leit að landsvæðum í sveitarfélaginu sem myndu henta til landeldis, að því er fram kemur í norska vefmiðlinum iLaks.no , sem sérhæfir sig í fréttum af laxeldi.

Sveitarstjórnin er skipuð fulltrúum fjögurra vinstri flokka. Ásamt Verkamannaflokknum fara Sósíalíski vinstriflokkurinn, Græningjar og Rauði flokkurinn, sem er yst til vinstri, með stjórn sveitarfélagsins.

Í nágrannasveitarfélaginu Norðurlandi hafa verið kynnt áform um tíu þúsund tonna laxeldi á landi í Andey , þar sem uppbygging á að hefjast strax án æsta ári. Hugmyndin er að taka sjó úr Andeyjarfirði og yrði þetta gegnumstreymiseldi. Reiknað er með að eldi þar hefjist árið 2020 og til að byrja með verði framleiðslan þúsund tonn.