Reyktal er dótturfélag Iceland Seas sem er í eigu Óttars Yngvasonar og Yngva Óttarssonar. Rækjuvinnslan Dögun ehf. á Sauðárkróki er einnig dótturfélag Reyktal. Fyrirtækið gerir út fimm frystitogara. Frystitogararnir eru Reval Viking, þar sem Eiríkur Sigurðsson er skipstjóri, Merike, Lokys, Steffano og Taurus. Gert er mest út á rækju í Norður-Atlantshafi og í Norður-Íshafi. Að meðaltali eru um 25 manns í áhöfn og tvær áhafnir á hverju skipi.

Reyktal er með eigið sölufyrirtæki sem heitir Íslenska útflutningsmiðstöðin. Reval Viking er öflugur, 61 metra langur togari og var lengi vel eitt af tveimur skipum í heiminum sem drógu þrjú troll samtímis. Aðalvélin er 7.500 hestöfl. Eiríkur var reyndar sá fyrsti í stétt skipstjóra sem reyndi að veiða með fjögur troll en veiðir annars aldrei með færri en þrjú á Reval Viking. Ekki gekk sem best með fjögur troll og ástæðan er sú að skipið er ekki nægilega breitt til að höndla það.

Pælt í nýjungum

„Við vorum mest í Barentshafinu og líka mikið við Vestur- og Austur-Grænland á rækjuveiðum. Við fórum líka langt norður fyrir Svalbarða, alveg norður að 82 gráðum 30. breiddar. Það er stutt í pólinn þar. Sjólagið á þessum slóðum er fínt en það er aðallega ísinn sem er til vandræða. Þótt aðalvélin sé 7.500 hestöfl er ísinn stundum það þykkur að skipið kemst ekki í gegn. Ég náði samt alltaf að bjarga mér en það eru dæmi um það að skip hafi frosið föst þarna og þurft ísbrjót til að losa þau. Þarna var ég árum saman. Ég held ég fari rétt með að ég hafi verið fyrsti íslenski skipstjórinn sem kastaði trolli fyrir rækju á Svalbarðasvæðinu og það er langt síðan það var, sennilega 1990. Svo var ég líka fyrstur til að kasta trolli fyrir rækju á Flæmska hattinum á svipuðum tíma. Þá var ég með Jón Finnson RE 506 en seinna var ég með önnur og öflugri skip þar sem hétu Húsvíkingur ÞH 1 og Pétur Jónsson RE 69, en það skip er núna í eigu Reyktal útgerðarinnar og heitir Steffano.“

Ísbjörn hnusar út í loftið við skipshlið. Mynd/Eiríkur Sigurðsson
Ísbjörn hnusar út í loftið við skipshlið. Mynd/Eiríkur Sigurðsson

Eiríkur segir gaman að vinna fyrir Reyktal útgerðina því þar sé mikið pælt í nýjungum hvað varðar veiðar, útgerð skipa og umhverfisvernd. Umhverfisverndin snýst um minnkun á olíunotkun og líka minna umhverfisrask á hafsbotni. Og þar kemur Eiríkur inn í jöfnuna því það er á hans borði að eiga samstarf við nýsköpunarfyrirtækið Optitog sem er að þróa byltingarkenndar aðferðir við trollveiðar með ljósvörpu.

Hvernig geturðu lifað með þessu?

„Það fyllir mig ekki stolti að segja frá því hve mikilli olíu við brennum á þessum skipum þótt það sé reyndar ekki meira hjá okkur en hjá öðrum. Dætur mínar spyrja mig hve mikilli olíu ég hafi brennt þennan daginn. Ég svara því til að kannski hafi þetta ekki verið svo slæmt í dag. Það hafi verið 16.000 lítrar en stundum fari það nú yfir 20.000 lítra yfir sólarhringinn. Þá spyrja þær mig hvernig ég geti lifað með þessu,“ segir Eiríkur. Hann er meðvitaður um þetta og segir að Reyktal vinni markvisst að því að draga úr kolefnissporinu. Það sé hægt að gera með nýjum vélum og betri hönnun á skrúfum. Svo þurfi að pæla í veiðarfærunum og að þau hafi minna viðnám. Það þurfi mikið vélarafl til þess að komast áfram með þrjú troll í togi, hvað þá fjögur. Minnstu breytir hve mikill fiskur er í þeim. Það sem ræður mestu er efnið, möskvastærðin og hlerarnir.

Engin framþróun í veiðarfærum

Eiríkur segir að undanfarin 20 ár hafi veiðarfærin sem notuð eru við rækjuveiðar því sem næst verið óbreytt. Á sama tíma hafi orðið gríðarlegar breytingar á öðrum sviðum og nefnir hann tölvutækni, gervigreind og efnisval í mörgum hlutum. En trollin séu nánast nákvæmlega eins og úr sömu efnum og fyrir 20 árum. Þetta eigi við um fiskveiðiflotann út um allan heim. Eiríkur er að prófa tæknina sem Optitog hefur þróað og miðar að því að smala rækju og fiski í troll með ljósi. Hann segir að tæknin lofi góðu en prófanir haldi áfram. Árangurinn verði stöðugt betri með fleiri prófunum. Það þurfi þolinmæði og endurteknar prófanir áður en endanleg niðurstaða fáist. Verkefnið kalli vissulega á aðeins meiri vinnu fyrir áhafnirnar. Stóra málið sé að fá áhafnirnar til að skilja heildarmyndina, sem er sú að náist ekki árangur með þessari nýju aðferð eigi menn jafnvel á hættu að verða atvinnulausir þegar fram líða stundir. Og vísar hann þar til þess að ekki líði á löngu þar til það verði ekki talið ásættanlegt að stunda veiðar sem vottunarfyrirtækin og umhverfisstofnanir telji að skaði lífríkið og hafsbotninn.

Það duga engin vettlingatök þegar ráðast þarf á ísstálið.
Það duga engin vettlingatök þegar ráðast þarf á ísstálið.

Troll í núverandi mynd á útleið

„Lokamarkmiðið er að hætta að nota troll í núverandi mynd. Nota heldur ljós til að smala saman rækjunni eða fiskinum í stað þess að vera bundnir af öllu þessu viðnámi af netum, gröndurum og hlerum. Öllu þessu þunga dóti. Við erum líka mikið að stefna að því að hætta að láta veiðarfæri snerta botn. Að geta stjórnað veiðarfærunum þannig að þau séu um fimm metra frá botni og nota ljós til að smala fiski eða rækju upp í trollið. Einhvern tíma kemur að því að við hættum að nota hlera. Þetta er framsýn hugsun og ekki hafa allir stokkið á þennan vagn frekar en aðra hugmyndavagna sem fela í sér róttækar breytingar. Það eru vaxandi kröfur frá umhverfisverndarsamtökum að við hættum að snerta botninn og valda skaða á honum, lífríkinu og kóröllum. Vottunarfyrirtæki munu líklega á endanum, sennilega innan fimm til tíu ára, vera komin á þann stað að þau gefa ekki út vottanir fyrir sjávarfang sem veitt er með veiðarfærum sem snerta botninn. Þess vegna þarf að gjörbreyta þeim aðferðum sem notaðar hafa verið og við stefnum í þessa átt með Optitog.“

Aðferðin er í stuttu máli sú að sterku ljósi er varpað á botninn. Rækja sem þar heldur sig fælist áreitið. Hún stekkur upp til að forðast ljósið og lendir þá í trollinu. Aðferðin hefur ekki verið prófuð á bolfiski á Reyktalsskipunum en Eiríkur segir að aðrir hafi gert það. Þær prófanir eru þó komnar skemmra á veg.

Orkuskipti

Það er líka skoðun Eiríks að langt sé í land með orkuskipti fyrir stór skip eins og frystitogara sem eru lengi að veiðum og nota mikla olíu. Skemmra sé þar til hægt verði að innleiða breytingar í minni skipum og hann segir að strandveiðiflotinn ætti allur að vera á rafmagni.

„Ég er ekki að segja að strandveiðisjómenn eigi að borga fyrir orkuskiptin sjálfir heldur þurfi að vera einhver hvati inni í kerfinu. Gangi bátarnir fyrir rafmagni gætu þeir til dæmis fengið aðeins meiri kvóta eða fleiri veiðidaga. Það á ekki að vera eintómur kostnaður og kvöð fyrir strandveiðimenn að fara út í orkuskipti heldur eiga einhverjir hvatar til breytinga að vera til staðar. Það vantar ekki innviði fyrir smábátana en þá vantar klárlega fyrir stærri skip,“ segir Eiríkur. Einhvers staðar þarf að byrja þessa vegferð og strandveiðiflotinn er tilvalinn til þess, ásamt þeim ferjum sem sigla stuttar leiðir. Ástæðan fyrir því að Eiríkur veltir þessum hlutum fyrir sér er ekki síst sú að umhverfis- og öryggismál eru honum hugleikin. Hann stundar útivist, fjallgöngur, kajakróður og skíðaíþróttir. Hann ferðast helst ekki á bíl heldur fer ferða sinna á hjóli. Hann er núna í mánaðarlöngu fríi milli túra og nýtir það til að róa til fiskjar og fara styttri túra á kajakinum sínum.