„Ég er bara þannig týpa að ég þrífst mjög vel í karllægri vinnu og umhverfi, ef það er eitthvað slíkt til,“ segir Erla Ásmundsdóttir, kokkur á frystitogaranum Helgu Maríu RE 1 hjá  Brimi.

Erla fór sinn fyrsta túr á Helgu Maríu í júlí í 2022 þegar vantaði kokk í áhöfnina með stuttum fyrirvara. Skömmu síðar var hún komin aftur um borð og á nú þar sitt fasta pláss.

Áhöfnin á Helgu Maríu telur fimmtán manns hverju sinni og er Erla eina konan um borð. Þótt hún segist una sér vel innan um karla kveðst hún engu að síður  vera mjög kvenleg á sama tíma.

„Mér finnst mjög gaman að vera í kjól, á hælum og með rauðan varalit og sítt og mikið hár og gervineglur – án þess að ég sé einhver voða gella. En á sama tíma þrífst ég best að vinna á sjó eða keyra trukka og fara upp á jökul,“ lýsir Erla sjálfri sér.

Erla Ásmundsdóttir á unglingsárunum í Eyjum. Mynd/Aðsendsi
Erla Ásmundsdóttir á unglingsárunum í Eyjum. Mynd/Aðsendsi

Að sögn Erlu er hún úr fjölskyldu þar sem allir eru mjög duglegir og vinnusamir. „Foreldrar mínir ala mig þannig upp að maður þarf að vinna fyrir hlutunum. Ég hef alla tíð þurft að vinna fyrir öllu sem ég hef viljað gera í lífinu. Ég hef ekki fengið neitt upp í hendurnar þó svo að ég sé með mjög gott bakland og trausta og góða fjölskyldu,“ segir Erla.

Sex ára í uppvaskinu 

Ung að árum var Erla byrjuð að leggja hönd á plóg í fiskvinnslunni sem foreldrar hennar ráku þá í Vestmannaeyjum

„Þegar ég var sex eða sjö ára fór ég að koma niður í vinnu til mömmu og pabba til að vinna mér inn smá vasapeninga. Í staðinn fyrir að fara ein heim eftir skóla þá bara skottaðist ég niður í vinnu og vaskaði upp bollana og fékk kannski 150 kall fyrir og fór og keypti mér bland í poka og kók,“ segir Erla.

Sprellað í Eyjum. Mynd/Aðsend
Sprellað í Eyjum. Mynd/Aðsend

Alla tíð síðan segist Erla hafa verið mjög dugleg að vinna. Uppeldi foreldranna hafi verið dýrmætt veganesti. „Ég mun alla tíð þakka þeim fyrir það að hafa kennt mér að vinna og bjarga mér sjálf.“

Erla er næstyngst í fimm systkina hópi. „Báðar systur mínar og annar bróðir minn eru farin að unga út börnum þannig að við erum orðin fimmtán eða sextán samtals. Við erum öll mjög vinnusöm og það eru allir bara alltaf í vinnunni,“ segir hún.

Íbúðarkaup nítján ára 

Á árinu 2003 þegar Erla var nítján ára fluttu foreldrar hennar frá Vestmannaeyjum á Reykjanesið þar sem þau hafa verið síðan. Hún sjálf varð hins vegar eftir í Eyjum.

„Þá bara keypti ég mér mína fyrstu íbúð og fór bara að vinna fyrir sjálfri mér. Ég átti kærasta í Eyjum á þeim tíma en þegar flosnaði upp úr því sambandi 2006 fór ég á eftir mömmu og pabba og flutti aftur til þeirra,“ segir Erla.

Á meðan foreldrar Erlu ráku fiskvinnsluna í Eyjum starfaði hún hjá þeim allt þar til þau hættu og fluttu. Þá tóku ýmis störf við.

„Ég vann á leikskóla og ég vann í Krónunni og ég vann á barnum og ég var plötusnúður. Ég var mikið í leikhúsinu, var leikhúsrotta og lék í mörgum uppfærslum,“ segir Erla. Hún hafi síðan flutt upp á land til að reyna að finna sjálfa sig sem kvenmann. Til þess fór hún í Kennaraháskólann eins og margar vinkonur hennar.

Klikkuð ákvörðun 

„Ég byrjaði að mennta mig sem grunnskólakennara en fann að það átti ekki alveg vel við mig þegar ég var búin að vinna sem kennari með námi í þrjú ár. Það var alltaf sama skólastofan, sami stóllinn, sama skrifborðið. Börn eru yndisleg og ég var alveg góð í þessu starfi en það hentaði mér ekki,“ segir Erla sem hætti í náminu sem „hálf menntaður grunnskólakennari“ eins og hún orðar það.

„Þá tók ég ákvörðun með sjálfri mér sem var kannski dálítið klikkuð. Ég ætlaði að vinna í kvikmyndabransanum. Draumurinn var að komast inn í bransann, alveg sama hvað ég færi að gera þar svo lengi sem maður væri í kringum kvikmyndir. Þar náði ég að troða mér inn í keitering-deild ,“ segir Erla.

Innkoman í kvikmyndageirann var í gegnum viðtal sem Erla fór í hjá Guðmundi Ragnarssyni í veitingahúsinu Laugaási. „Hann réði mig í vinnu á núll einni. Ég náttúrlega aðeins ýkti það í viðtalinu hvað ég væri góður kokkur,“ játar hún og hlær.

Símtöl til mömmu úr Veiðivötnum

Daginn eftir var Erla komin upp í Veiðivötn á vegum veisluþjónustu Laugaáss til að vera ein að elda fyrir fjörutíu karlmenn sem þá voru undirbúa tökur á myndinni Oblivion með Tom Cruise.

„Það var ótrúlega skemmtilegt en líka mjög erfitt þar sem ég var kannski ekki alveg eins góð í kokkaríinu og ég var ég búin að ljúga en þar kom mamma mikið við sögu. Ég var mikið með mömmu í símanum að spyrja hvernig ég ætti að þykkja sósur og hversu lengi ég ætti að elda kjúklinginn,“ segir Erla.

Þegar tökur voru að hefjast segir Erla þrjú til fjögur hundruð manns hafa verið á svæðinu og þá hafi auðvitað fleiri bæst við í eldhúsinu.

Áhugann á kvikmyndunum segist Erla hafa fengið frá stóra bróður sínum sem reyndar sé á sjónum núna eins og hún. „Hann er eiginlega mín fyrirmynd í lífinu. Hann var alltaf í þessum kvikmyndabransa og ég fékk hann til þess að koma mér inn í þetta.“ 

Stórverkefni í röðum

Meðal annarra kvikmyndaverkefna sem Erla tók þátt í má nefna Game Of Thrones, Star Wars, Transformers, Thor 2 og The Secret Life of Walter Mitty.

„Þarna lærði ég í raun og veru allt sem ég kann sem kokkur. Það hefur greinilega blundað í mér að kunna að elda en mamma hefur unnið í eldamennsku meira og minna allt sitt líf,“ segir Erla.

Á árinu 2018 keypti Erla íbúð í Kópavogi og fór að finna fyrir því að hana vantaði meiri festu í lífið.

Um borð í Helgu Maríu. FF Mynd/Eyþór
Um borð í Helgu Maríu. FF Mynd/Eyþór
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Í þessu kvikmyndastússi var maður bara í verktakavinnu. Þá er maður ekki með nein föst laun og ekki með fastan vinnutíma og veit ekki í raun hvað er að fara að gerast þegar verkefnið sem maður er í þann daginn er búið. Ég var farin að finna fyrir stressi. Fæ ég nógu mikinn pening fyrir næstu mánaðamót til að geta borgað af minni eign?“ segir Erla. Hana hafi langað í vinnu frá átta til fjögur þar sem er frí á kvöldin og hægt að vera heima um helgar. „Bara eins og venjulegt fólk gerir.“

Ákvað að vera skemmtileg

Erla fór nú að vinna sem sölumaður hjá heildsölunni Garra.

„Það hentaði mér vel út af því að ég keyrði mjög mikið á milli staða og var ekki föst á skrifstofunni við tölvuna.  Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og ég eignaðist fullt af góðum vinum. Ég gat mætt í mínum kjól og verið smá skvísa, spjallað við fólk og verið á ferðinni. Mér fannst það æði en lenti í því að missa vinnuna út af einhverjum skipulagsbreytingum eftir fjögur ár – sem var ekki skemmtilegt,“ segir Erla.

Þetta var í janúar 2022.

„Þarna tók ég ákvörðun um að vera einu sinni ung og skemmtileg,“ segir Erla sem í samræmi við það fór til Vestmannaeyja í maí 2022 til að vinna sem leiðsögumaður hjá RIB-Safari. 

Súkkulaðibrún á spíttbátum

„Það er eitt það allra, allra skemmtilegasta sem ég hef gert, verandi á spíttbátum með túrista alla daga og orðin súkkulaðibrún í andlitinu og á handarbökunum,“ segir Erla og hlær. Hún hafði farið í Slysavarnaskólann og var nú komin með annan fótinn út á sjó. Þá hringdi síminn.

„Ég er spurð hvort ég sé til í að koma og prufa einn túr á Helgu Maríu sem kokkur. Þeir bara lenda í því að þá vantar kokk og ég ákvað að fara einn prufutúr,“ segir Erla sem dreif sig til Reykjavíkur og mætti um borð.

„Ég var mjög stressuð og var búin að fara í apótekið í Vestmannaeyjum og kaupa allt sem heitir sjóveikistöflur og kaupa einhvern brjóstsykur sem er fyrir óléttar konur með morgunógleði. Það var alveg á hreinu að ég ætlaði ekki að verða sjóveik og keypti þetta bara allt upp,“ rifjar Erla upp og hlær að sjálfri sér.

Sjóveikistöflur að renna út

„Svo fór ég út á sjó og það var renniblíða. Þetta var í lok júlí og þvílíkt fallegt veður og ég fann náttúrlega ekki fyrir sjóveiki í eina mínútu,“ segir Erla sem í þessum fyrsta túr fór á Halamið úti fyrir Vestfjörðum.

© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Lítið gekk á lyfjabirgðirnar sem Erla hafði hreinsað úr apótekinu heima í Eyjum. „Ég varð ekkert sjóveik og hef aldrei orðið sjóveik. Þessar töflur eru ábyggilega allar að renna út í skúffunni minni inn í klefa.“

Eftir fyrsta túrinn með Helgu Maríu lá leið Erlu aftur til Vestmannaeyja þar sem hún hélt áfram hjá RIB-Safari nda búin að lofa sér þar út sumarið.

„En það liðu ekki nema ein eða tvær vikur eftir að ég kom heim þar til þeir höfðu samband við mig og spurðu hvort ég vildi koma aftur. Þá ákvað ég bara að slá til enda sumarið að verða búið og ég var ekki búin að festa mig í neinni vinnu þegar ég kæmi aftur til Reykjavíkur þótt ég hafi verið með eitthvað í sigtinu,“ segir Erla.

Að sögn Erlu var henni boðin fastráðning eftir um einn mánuð um borð í Helgu Maríu. Henni líkar vistin mjög vel. „Þetta  ætla ég að halda áfram að gera að minnsta kosti í einhvern tíma í viðbót,“ segir hún.

Sjórinn lengi kallað

Aðspurð segir Erla að lengi hafi blundað í henni sú þrá að fara á sjóinn enda sé hún fædd og uppalin í Vestmannaeyjum þar sem öll skipin og bátarnir blasi við. Hana hafa lengi langað að prófa en ekki þorað að taka skrefið.

„Þetta var mest sú tilhugsun að vera föst á einhverjum stáldalli úti á ballarhafi í ógeðslegu veðri, kannski með einhverjum sveittum og ógeðslegum köllum. En svo er það ekkert raunin. Auðvitað er maður á stáldalli úti á ballarhafi í ógeðslegu veðri en þetta eru vinir manns sem eru með manni og skipið er hreint og fínt. Eftir vaktina getur maður farið í heita pottinn og sána og það er hægt að fara í ræktina,“ lýsir Erla aðbúnaðinum um borð.

Í landi sinnir Erla tengslunum við fjölskylduna. „Ég er bara ein, á ekki börn og ekki maka en ég á stóra fjölskyldu og mikið af systkinabörnum sem mér þykir voða gaman að rækta sambandið við þegar ég er í landi og fer með litlu strákana í bakaríið og sund og alls konar. Maður þarf að viðhalda því að vera Erla besta frænka,“ bendir hún á.

Til Vegas með forföllnu bílaáhugafólki

Þá segist Erla hafa gaman af því að fara heim til Vestmannaeyja og heimsækja systur sína og bróður og vini. Í fríum ferðist hún mikið. Kveðst síðast hafa verið á Tenerife eins og allir hinir og sé á leið til Noregs í apríl.

„Svo fór ég til Vegas á bílasýningu. Ég er ekki mikil bílaáhugamanneskja en ég er í þannig vinahóp. Systir mín og maðurinn hennar eru forfallnir bílaáhugamenn og ég hef farið með þeim þrisvar sinnum út á bílasýningar, tvisvar til Vegas og einu sinni til Orlando,“ segir Erla sem reyndar er að svipast um eftir einhverju áhugamáli.

„Ég er alltaf bara eitthvað að dandalast. Þegar maður býr einn og kemur heim í frí á virkum dögum þegar allir hinir eru að vinna þá vantar eitthvað að gera, sérstaklega yfir vetrartímann.“

Áhöfnin brot af því besta

Fimmtán eru í áhöfn Helgu Maríu og Erla er eina konan eins og áður segir.

„Ég þrífst mjög vel með strákunum og strákarnir láta ekkert á sig fá þótt það sé kona um borð. Þeir bara koma fram við mig eins og þeir koma fram við hver annan og við erum öll góðir vinir. Ég treysti þessum strákum hundrað prósent fyrir lífinu mínu. Á meðan heilsa og líkami og annað leyfir ætla ég að vera þarna og á meðan þeir vilja hafa mig og ég vil vera hjá þeim,“ segir Erla sem kveður mannskapinn koma víða af á landinu og einfaldlega vera yndislegan. „Ég myndi segja að þeir væru brot af því besta.“

Kokkurinn í ríki sínu um borð í Helgu Maríu RE. FF Mynd/Eyþór Árnason
Kokkurinn í ríki sínu um borð í Helgu Maríu RE. FF Mynd/Eyþór Árnason
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)