Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi núna á dögunum nýjan Cleopatra 33 bát til eyjarinnar Mayotte við austurströnd Afríku. Mayotte er franskt sjálfstjórnarsvæði í Kómoreyjaklasanum í Indlandshafi á milli Madagaskar og Mósambík.
Nýi báturinn, sem hefur hlotið nafnið Faïzanas Sa, er 11 brúttótonn. Hann er útbúinn til túnfiskveiða með flotlínu. Notuð 50 km löng 3 mm girnislína við veiðarnar og 1000 krókar beittir á hverri lögn.
Í bátnum er einangruð fiskilest. Hífingarbúnaður er á dekki til að auðvelda inntöku stórra fiska. Sólhlíf er yfir vinnudekki.
Reiknað er með að báturinn muni hefja veiðar í Indlandshafinu nú í september.