Íslenska fyrirtækið Trackwell hefur nú innleitt tvö ný fiskveiðieftirlitskerfi í Kyrrahafinu hjá Fiskveiðiráði Kyrrahafseyjanna og Fiskveiðnefnd Vestur- og Mið Kyrrahafs. Hafsvæðið sem heyrir undir þessar stofnanir er um 100 milljónir ferkílómetra að flatarmáli og sér Trackwell um rekstur á kerfinu í samvinnu við skýjaþjónustu Amazon í Ástralíu. Tuttugu og sex ríki eiga aðild að nefndum fiskveiðiráðum , en auk þeirra eru sjö þátttökuríki með takmarkaða aðild, og önnur sjö sem standa utan aðildar en taka þátt í samstarfinu.
Þúsundir skipa í rauntíma
Trackwell fiskveiðieftirlitskerfið gerir notendum kleift að fylgjast með margvíslegum þáttum í atferli þúsunda skipa í rauntíma. Þannig geta ríki og stofnanir sinnt eftirliti með sinni efnahagslögsögu, ásamt veiðum á afmörkuðum svæðum. Kerfið heldur utan um veiðar skipa og sér um samskipti þeirra milli aðildarþjóða.
Þróað á Íslandi
Trackwell fiskveiðieftirlitskerfið er í grunninn það sama og það sem gjarnan er nefnt „Fjareftirlitskerfið“ á Íslandi. Kerfið hefur verið í þróun frá árinu 1996 í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, Neyðarlínuna, og sjávarútvegsráðuneytið, auk fjölda erlendra viðskiptavina. Vaktstöð siglinga nýtir kerfið til að sinna sjálfvirkri tilkynningarskyldu og lögbundnu fiskveiðieftirliti, auk miðlunar upplýsinga milli þjóða vegna veiðiheimilda í öðrum lögsögum og til fiskveiðistofnana sem sinna eftirliti með veiðum í úthafi. Með samstarfi sínu við fyrrnefndar stofnanir og sérfræðinga þeirra, hefur Trackwell tekist að þróa kerfið í það að verða í fremstu röð fiskveiðieftirlitskerfa, segir í frétt frá Trackwell.