Hið nýja sanddæluskip Björgunar, Álfsnes, hefur undanfarna daga verið að dæla upp sandi við Akureyri og losa hann í höfnina framan við Torfunesbryggju. Þetta mun vera fyrsta verkefni skipsins, en þetta verkefni er liður í fyrirhugaðri endurbyggingu Torfunesbryggju.
„Þetta er ný endurbygging á 140 metra bryggju og inni í miðbæ, þannig að þetta er stórt verkefni og dýrt,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri.
„En Torfunesbryggjan er búin að vera slæm í tíu fimmtán ár þannig að það var orðin brýn þörf að laga hana.“
Hvalaskoðunarskip hafa verið með aðstöðu á Torfunesbryggjunni en þegar búið er að endurbyggja hana fá smærri skemmtiferðaskip þar aðstöðu einnig. Partur af framkvæmdunum er að koma upp raftengingu fyrir skipin sem þar leggjast að.
„Þetta er bara nútíminn að ná að tengja alla vega skemmtiferðaskipin,“ segir Pétur. Frekari framkvæmdir við landtengingar eru langt komnar á öðrum stað fyrir togara og minni skip, en ekki er alveg komið að því að stóru skemmtiferðaskipin geti tengst rafmagni við Akureyrarhöfn.
„Það er einhver lengri tíð í að við náum að tengja þau. Við erum að tala um að bara tengingin myndi kosta einn og hálfan milljarð.“
Skipið reynist vel
Björgun ehf. keypti sandæluskipið Álfsnes fyrir stuttu og ákvað að nefna skipið, sem áður hét Gigante, eftir nýrri starfsstöð fyrirtækisins sem verður í Álfsnesi.
„Þetta var fyrsta prufukeyrslan á Akureyri og þetta lítur allt saman bara mjög vel út. Lofar góðu,“ segir Eysteinn Dofrason verkefnastjóri.
„Við vorum að dæla efni í kringum Torfunesbryggjuna og sóttum efnið í sjó fyrir neðan Glerána.“
Álfsnesið er lagt af stað til Hafnar í Hornafirði þar sem nýtt verkefni bíður, og síðan verður haldið til Ísafjarðar, þaðan til Landeyjahafnar og loks á Bíldudal.
Lyftistöng
Pétur hafnarstjóri segir að ný Torfunesbryggja verði mikil lyftistöng fyrir Akureyri. Smærri skemmtiferðaskipin geti nú lagst að bryggju nær miðbænum, enda er bryggjan beint fyrir neðan „Gilið“ og aðeins stuttur spotti að ganga upp í Hafnarstræti.
Hann segir að stálþil bryggjunnar verði rekið niður í vetur og næsta vor ætti ný Torfunesbryggja að vera orðin nothæf að hluta til.
Rétt eins og í öðrum stærri höfnum umhverfis landið hefur komum skemmtiferðaskipa til Akureyrar fjölgað mjög á þessu sumri.
Alls er reiknað með um 70 skemmtiferðaskipum þangað á þessu ári og heimsóknir þeirra verða hátt í tvö hundruð. Búist er við enn meiri fjölgun skipa á næsta ári, en þetta eru mikil viðbrigði frá covid-tímanum þegar nánast ekkert skip lét sjá sig.