Þegar Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, er beðinn að horfa til framtíðar varðandi sjálfan sig hvað atvinnu snertir segist hann lítið annað sjá en sjómennskuna.

„Það vita það flestir sem eytt hafa stórum hluta ævinnar á sjó að þú giftist sjómennskunni og með því tengist þú henni vel. Það er ekki auðvelt að skilja við hana, hafið togar alltaf í mann,“ segir Tómas.

En í landi er fólkið hans Tómasar sem á eiginkonu og þrjú uppkomin börn, tvær dætur og einn son.

„Barnabörnin verða átta í aprílmánuði og er nóg að gera í fríunum að leika með þeim. Kletturinn í landi er að sjálfsögðu eiginkonan mín hún Dagmar Helga Traustadóttir sem siglir með manni í lífinu í mismunandi aðstæðum. Líkt og á sjónum snýst þetta allt um samvinnuna. Börnin mín fengu öll að kynnast sjómannslífinu og komu með í túra á sínum yngri árum,“ segir Tómas. Fjölskyldan og konan séu partur af hans áhöfn því hún velji að standa með honum í sjómennskunni.

Sonur í fótspor feðranna

Tómas Kárason og Dagmar Helga Traustadóttir. Mynd/Aðsend
Tómas Kárason og Dagmar Helga Traustadóttir. Mynd/Aðsend

„Maður er oft að heiman og komandi heim á ókristilegum tímum og yfirleitt bundinn og giftur starfinu. Sjómannskonur eiga allan heiður skilinn fyrir að standa í þessu með okkur enda ganga þær í öll verk í landi eins og ekkert sé,“ undirstrikar Tómas.

„Talandi um að feta í fótspor feðranna að þá fór sonur minn sömu leið og ég og valdi hann sjómennskuna og byrjaði ungur,“ bætir Tómas við. „Hann byrjaði fimmtán ára á línubát og hefur nú hlotið stýrimannsréttindi. Það er gott og gaman að geta deilt þeirri reynslu sem maður hefur til yngri manna í greininni.“

Flugskírteini og fyrsta barnið

Hvað snertir sín persónulegu áhugamál segir Tómas þau alla tíð hafa tengst ýmiss konar sporti, aðallega mótorsporti. Mótorhjól hafi alla tíð verið á hans heimili allt frá því að hann var barn.

„Ég hef ferðast töluvert um slóða landsins í gegnum tíðina á mótorhjóli og hef mikla ánægju af því að skoða nýja staði í náttúrunni. Ég keppti um tíma í þolakstri og svo hafa börnin verið með mér í sportinu og hefur það veitt okkur heilmikið af góðum samverustundum,“ segir Tómas sem á sér einnig annað áhugamál sem hann kveður hafa fylgt sér í 37 ár og sé nú efst á listanum.

„Ég fékk mitt fyrsta flugskírteini á sama tíma og ég eignaðist fyrsta barnið mitt. Flugið hefur verið aðaláhugamálið í seinni tíð og það er fátt sem toppar góðan flugdag í góðu veðri, skoðandi hvern krók og kima landsins úr lofti,“ segir Tómas. Flugið hafi meira að segja tengst fiskveiðum hjá honum.

Hugsar til flugsins við makrílleit

„Fyrir allmörgum árum þegar loðnan lét lítið fyrir sér fara fór ég í leiðangur í flugvél að hausti til norður fyrir land í leit að loðnu. Leitað var eftir hval og fuglalífi en á þessum tíma var lítið um stóra flekki sem hægt var að finna úr lofti,“ segir Tómas.

Flogið yfir loðnu. Mynd/Aðsend
Flogið yfir loðnu. Mynd/Aðsend

Með í ferðinni var Gísli Arnór Víkingsson heitinn, sjávarlíffræðingur frá Hafrannsóknastofnun, og flugstjórinn var Kári Kárason, bróðir Tómasar sem sjálfur tók titilinn navigator eða siglingafræðingur við þetta tilefni.

„Til verksins var notuð hátæknileg tveggja hreyfla flugvél. Hvalur og fugl fundust og tólf tímum síðar ágætis loðnuveiði á svipaðri slóð. Ferðin gekk í alla staði vel og hef ég oft hugsað til þess þegar ég leita eftir makríl í góðu veðri og sléttum sjó, þar sem augað og kíkirinn skipta miklu máli, að gott væri að vera í flugvél og ferðast um fyrir ofan hafflötinn á leitarhraða nálægt 150 hnútum í stað 10-12 hnútum skipsins,“ segir Tómas og skilur okkur eftir með þessar áhugaverðu vangaveltur.

Þegar Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, er beðinn að horfa til framtíðar varðandi sjálfan sig hvað atvinnu snertir segist hann lítið annað sjá en sjómennskuna.

„Það vita það flestir sem eytt hafa stórum hluta ævinnar á sjó að þú giftist sjómennskunni og með því tengist þú henni vel. Það er ekki auðvelt að skilja við hana, hafið togar alltaf í mann,“ segir Tómas.

En í landi er fólkið hans Tómasar sem á eiginkonu og þrjú uppkomin börn, tvær dætur og einn son.

„Barnabörnin verða átta í aprílmánuði og er nóg að gera í fríunum að leika með þeim. Kletturinn í landi er að sjálfsögðu eiginkonan mín hún Dagmar Helga Traustadóttir sem siglir með manni í lífinu í mismunandi aðstæðum. Líkt og á sjónum snýst þetta allt um samvinnuna. Börnin mín fengu öll að kynnast sjómannslífinu og komu með í túra á sínum yngri árum,“ segir Tómas. Fjölskyldan og konan séu partur af hans áhöfn því hún velji að standa með honum í sjómennskunni.

Sonur í fótspor feðranna

Tómas Kárason og Dagmar Helga Traustadóttir. Mynd/Aðsend
Tómas Kárason og Dagmar Helga Traustadóttir. Mynd/Aðsend

„Maður er oft að heiman og komandi heim á ókristilegum tímum og yfirleitt bundinn og giftur starfinu. Sjómannskonur eiga allan heiður skilinn fyrir að standa í þessu með okkur enda ganga þær í öll verk í landi eins og ekkert sé,“ undirstrikar Tómas.

„Talandi um að feta í fótspor feðranna að þá fór sonur minn sömu leið og ég og valdi hann sjómennskuna og byrjaði ungur,“ bætir Tómas við. „Hann byrjaði fimmtán ára á línubát og hefur nú hlotið stýrimannsréttindi. Það er gott og gaman að geta deilt þeirri reynslu sem maður hefur til yngri manna í greininni.“

Flugskírteini og fyrsta barnið

Hvað snertir sín persónulegu áhugamál segir Tómas þau alla tíð hafa tengst ýmiss konar sporti, aðallega mótorsporti. Mótorhjól hafi alla tíð verið á hans heimili allt frá því að hann var barn.

„Ég hef ferðast töluvert um slóða landsins í gegnum tíðina á mótorhjóli og hef mikla ánægju af því að skoða nýja staði í náttúrunni. Ég keppti um tíma í þolakstri og svo hafa börnin verið með mér í sportinu og hefur það veitt okkur heilmikið af góðum samverustundum,“ segir Tómas sem á sér einnig annað áhugamál sem hann kveður hafa fylgt sér í 37 ár og sé nú efst á listanum.

„Ég fékk mitt fyrsta flugskírteini á sama tíma og ég eignaðist fyrsta barnið mitt. Flugið hefur verið aðaláhugamálið í seinni tíð og það er fátt sem toppar góðan flugdag í góðu veðri, skoðandi hvern krók og kima landsins úr lofti,“ segir Tómas. Flugið hafi meira að segja tengst fiskveiðum hjá honum.

Hugsar til flugsins við makrílleit

„Fyrir allmörgum árum þegar loðnan lét lítið fyrir sér fara fór ég í leiðangur í flugvél að hausti til norður fyrir land í leit að loðnu. Leitað var eftir hval og fuglalífi en á þessum tíma var lítið um stóra flekki sem hægt var að finna úr lofti,“ segir Tómas.

Flogið yfir loðnu. Mynd/Aðsend
Flogið yfir loðnu. Mynd/Aðsend

Með í ferðinni var Gísli Arnór Víkingsson heitinn, sjávarlíffræðingur frá Hafrannsóknastofnun, og flugstjórinn var Kári Kárason, bróðir Tómasar sem sjálfur tók titilinn navigator eða siglingafræðingur við þetta tilefni.

„Til verksins var notuð hátæknileg tveggja hreyfla flugvél. Hvalur og fugl fundust og tólf tímum síðar ágætis loðnuveiði á svipaðri slóð. Ferðin gekk í alla staði vel og hef ég oft hugsað til þess þegar ég leita eftir makríl í góðu veðri og sléttum sjó, þar sem augað og kíkirinn skipta miklu máli, að gott væri að vera í flugvél og ferðast um fyrir ofan hafflötinn á leitarhraða nálægt 150 hnútum í stað 10-12 hnútum skipsins,“ segir Tómas og skilur okkur eftir með þessar áhugaverðu vangaveltur.