Tólf ára piltur í Noregi hefur verið útnefndur heimsmeistari í gelluskurði. Hann sigraði í keppni í Vesterålen um hver væri fljótastur að gella með því að skera 34 gellur á tveimur mínútum, að því er fram kemur í frétt í norska sjónvarpinu.
Pilturinn, sem heitir Jostein Ekran og er frá Myre i Vesterålen, fékk 1.000 krónur norskar í verðlaun í keppninni. Keppendur í gelluskurðinum voru á aldrinum 10-13 ára. Ekki fylgir sögunni hvers vegna þeir í Vesterålen telja sig þess umkomna að útnefna sigurvegarann í héraðskeppni sem heimsmeistara.
Mikill þorskur berst nú á land í Vesterålen en veiðar úr hrygningargöngu þorsks standa sem hæst. Krakkar fá vinnu við að gella eins og tíðkaðist hér á landi, einkum og sér í lagi í Vestmannaeyjum.
Jostein Ekran segist í viðtali við norska sjónvarpið þéna mikið á vertíðinni, eða um 10 þúsund krónur norskar (218 þúsund íslenskar). Launin leggur hann inn á sparisjóðsbók. Hann segist hafa samið um það við föður sinn að því sem hann þénaði umfram fengi hann að ráðstafa sjálfur.