Faxaflóahafnir tóku á móti farþegaskipum í 190 skipti á þessu ári. Aldrei áður hefur verið tekið á móti fleiri skipum og farþegar aldrei verið fleiri eða 188.630 þegar allt er talið. Fjölgun á skipakomum var 25% milli ára og fjölgun farþega um rúmlega 30%.

Þetta er niðurstaða Faxaflóahafna, sem sendu frá sér uppgjör yfir komur skemmtiferðaskipa síðustu ára nú fyrr í desember. Þar má sjá að farþegafjöldinn er að mestu borinn uppi af Þjóðverjum, Bretum og Bandaríkjamönnum, en svo hefur verið um langt árabil. Þjóðverjar hafa frá aldamótum verið stærsti hópurinn og í fyrra komu 48.774 þýskir ferðamenn með skemmtiferðaskipum til Íslands.

Árið 2018 var framkvæmd könnun á vegum GP Wild og niðurstöður sýna að heimsóknir farþegaskipa skiluðu 16,4 milljarða eftir sig hér á landi og um 920 heilsárs störf urðu til. Mörg þessara starfa verða til á landsbyggðinni.

Fjöldi skipa í smíðum

Í samantekt Faxaflóahafna í fyrra var sagt frá því að útgerðir skemmtiferðaskipanna leggja áherslu á að endurnýja flota sinn samkvæmt bestu fáanlegri tækni. Þannig verða á næstu átta árum smíðuð yfir 90 ný skip. Af þeim verða átján knúin með náttúrugasi (LNG) og 22 þessara skipa verða sérsmíðuð fyrir heimskautasvæðin. Útgerðirnar verja á annað hundrað milljörðum króna til að gera skipin umhverfisvænni, í samræmi við kröfur hjá flestum þeim löndum sem þau heimsækja.

Í þessu samhengi er vert að benda á að frá og með 1. janúar 2020 má brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands ekki vera meira 0,5%. Þetta mun einnig gilda um öll heimshöfin fyrir utan þau svæði sem í dag eru skilgreind ECA-svæði þar sem ekki er heimilt að fara yfir 0,1% .

„Framangreint ber með sér að frá árinu 2020 verður tæplega mögulegt að nota svartolíu nema skip séu útbúin hreinsibúnaði og sá búnaður nægi til að brennisteinsinnihald fari ekki yfir 0,5%.

Ísland hluti af AECO

Association of Arctic Expedition Cruise Operators (AECO) eru alþjóðleg samtök rekstraraðila leiðangursfarþegaskipa og samstarfsaðila þeirra á norðurslóðum, sem helga sig umhverfisvænum, öruggum og tillitssömum rekstri skemmtiskipa. Þann 29. október 2018 varð Ísland hluti af starfsvæði AECO.

Starfssvæði samtakanna nær yfir Svalbarða, Jan Mayen, Grænland, norðurhluta Kanada og norðurskautsþjóðgarðinn í Rússlandi, sem og Ísland frá árinu 2019. AECO hefur um 70 alþjóðlega meðlimi – þar á meðal eru 40 skiprekendur, eigendur og stjórnendur, og 50 leiðangursfarþegaskip – og er því í forsvari fyrir meirihluta þeirra sem stunda slíkan rekstur á norðurslóðum. Meðlimir AECO sigldu með alls 26.000 farþega til þessara svæða árið 2018. Samtökin hafa sett sér fjölda reglna sem meðlimum þeirra er skylt að fylgja. Þar á meðal eru reglur er varða starfsemi fyrirtækjanna, dýralíf, gesti, ákveðna staði og fleira.

Í sumar mun að öllum líkindum líta dagsins ljós fyrstu leiðbeiningarnar frá AECO fyrir Seyðisfjörð.  Þær leiðbeiningar hafa verið unnar í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu. Umhverfisstofnun er þar að auki búin að gefa út leiðbeiningar fyrir Friðlandið á Hornströndum, segir í frétt Faxaflóahafna.