Bræðurnir Bragi og Ægir Örn Valgeirssynir, sem einna kunnastir eru fyrir rekstur Skipaþjónustunnar ehf. við Reykjavíkurhöfn, eru stórhuga. Nýlega festu þeir kaup á þremur dráttarbátum sem hver um sig er með 50 tonna dráttargetu og því aflmestu dráttarbátar landsins.
Áður höfðu þeir keypt dráttarbátinn Togarann sem smíðaður var 1977. Hann sér um að koma olíuprammanum Berki til viðskiptavina. Nýjasta útspilið er kaup þeirra bræðra á skuttogaranum Mars RE, áður Sturlaugi Böðvarssyni AK, sem fór í sína síðustu veiðiferð fyrir HB Granda í febrúar 2018.
Þeir stofnuðu Skipaþjónustuna árið 2001 og hafa frá þeim tíma þjónustað sjávarútveginn á ýmsa lund aðra en löndun. Reksturinn vatt upp á sig og fyrr en varði var kominn floti af dælu- og olíubílum og verkefnin fólust líka í því að háþrýstiþvo og mála skip og báta.
2007 keyptu þeir sinn fyrsta bát. Það var dráttarbáturinn Herkúles sem þeir fengu frá Ístak. Hann liggur nú við bryggju. Hann má muna fífil sinn fegurri og er á leið í pottinn.
„Þarna fengum við smjörþefinn af þeim tækifærum sem lágu í loftinu. Við vorum þó aðallega að þjónusta Ístak sem voru að leggja skólplagnir út frá dælustöðvunum á höfuðborgarsvæðinu. Við ætlum svo að stækka við okkur og tókum dálítið „2008“ á þetta. Svo kom hrunið og allt var blásið af,“ segir Bragi.
Olíuflutningar
Það var svo ekki fyrr en 2015 að þeir fóru aftur af stað. Ári síðar keyptu þeir dráttarbátinn Togarann úti á Spáni og stofnuðu félagið Togskip ehf. 2017 hófst samstarf við Skeljung um rekstur olíuprammans Barkans. Þar með hófust olíuflutningar á vegum fyrirtækis þeirra bræðra. Þeir hafa mikið þjónustað skemmtiferðaskip, flutningaskip og togara. Fyrsta heila árið í þessum hluta starfseminnar var árið 2018 og var afkoman góð. Bragi segir að yfirstandandi ár sé ekki síðra hvað það varðar. Þarna eru þeir bræður í samkeppni við Olíudreifingu.
„Það passaði vel inn í reksturinn á dráttarbátnum þegar samstarfið við Skeljung hófst. Skeljungur selur olíuna og á olíuprammann með okkur.“
2018 fjölgaði enn í flota Togskipa þegar keyptir voru þrír 28 metra langir dráttarbátar með 50 tonna togkrafti af hollensku fyrirtæki. Bræðurnir fóru alla leið til Nígeríu til að sækja þá. Bátarnir voru síðan fluttir til Íslands með flutningaskipi. Þetta eru systurbátar og segir Ægir Örn allt kramið í þeim gott. Ófáar stundirnar hafa þó farið í það að laga þá og aðlaga íslenskum aðstæðum. Grettir sterki RE hefur komið sterkur inn í reksturinn á þessu ári. Skemmst er að minnast þegar hann sigldi til Vopnafjarðar og dró vélarvana Víking AK inn til Akureyrar. Það hefðu aðrir íslenskir dráttarbátar sennilega ekki ráðið við. Í lok mánaðarins verður dráttarbátur númer tvö, nýr Herkúles RE, tilbúinn til notkunar. Fyrir jól stefna þeir bræður svo á að taka þriðja togbátinn í notkun og fær hann nafnið Kolbeinn grön, nefndur eftir einum af fjórum Dufgusonum sem voru nafnkunnir bræður á Sturlungaöld og liðsmenn Sturlunga og frændur.
Ótvíræðir aflsmunir
Með togbátunum þremur og Togaranum verður dráttargetan komin upp í 200 tonn og geta aðrir ekki státað af slíkum aflsmunum hér á landi, hvorki Faxaflóahafnir né Landhelgisgæslan. Hingað koma skip sem kalla á dráttargeta af þessu tagi. Komið hefur fyrir að ekki hefur verið hægt að taka við skipum í Reykjavíkurhöfn og annars staðar vegna skorts á dráttargetu. Enn frekari bragarbót verður svo í þessum málum þegar Faxaflóahafnir taka í notkun nýjan Magna með 85 tonna dráttargetu fram og 80 tonna aftur sem er helmingi meiri dráttargeta en núverandi Magni og sá sami og samanlagt allra fjögurra núverandi báta Faxaflóahafna.
Þeir bræður segja talsverðar fjárfestingar liggja í uppbyggingunni og fyrirtækin starfa í hörðu samkeppnisumhverfi. Þeir horfa björtum augum til framtíðarinnar enda hefur skipakomum fjölgað verulega og ekkert lát virðist vera á því á næstu árum. Þeir stefna að því að ráða til sín hafnsögumann til þess að geta veitt skemmtiferðaskipum og olíuskipum sem koma til landsins hafnleiðsögu. Engu að síður bættist enn við í skipaflotann þegar þeir keyptu Mars RE, áður Sturlaug Böðvarsson AK, af Útgerðarfélagi Reykjavíkur nú fyrir skemmstu.
„Við sjáum skipið fyrir okkur sem nokkurs konar þjónustuskip. Við erum með viss verkefni í huga fyrir það. Það voru allir sáttir, jafnt seljandi og kaupendur,“ segir Ægir.