Togari bættist við skipaflota Bolvíkinga í fyrrakvöld þegar Sirrý ÍS 36 kom í fyrsta sinn til heimahafnar, en rúm 20 ár eru síðan togari var síðast gerður út frá plássinu. Kaupandi er Jakob Valgeir ehf. sem rekur útgerð og fiskvinnslu á staðnum. Skipið er keypt frá Noregi af útgerðarrisanum Havfisk og kostaði 20 milljónir norskra króna eða jafnvirði um 300 milljóna íslenskra króna. Það var smíðað á Spáni árið 1998 og er 45 metra langt, 10 metra breitt og mælist um 700 brúttótonn.

Aðalvélin er 2.445 hestafla. Rúm er fyrir 320 kör í lest eða um 100 tonna afla. Skipið hét áður Stamsund og var því siglt undir því nafni til Íslands. Línuskipið Þorlákur ÍS verður selt og kvóti hans fluttur yfir á Sirrý ÍS.

Jakob Valgeir Flosason framkvæmdastjóri segir í samtali við Fiskifréttir að meginmarkmiðið með togarakaupunum sé að jafna sveiflur í hráefnisöflun fyrirtækisins en hún hefur byggst á línuskipinu Þorláki og þremur smábátum.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.