Samkvæmt tölum frá Alþjóðabankanum hefur sjávarafli í heiminum aukist úr 69 milljónum tonna í 93 milljónir tonna á síðustu þremur áratugum. Þá hefur fiskeldi farið úr 5 milljónum tonna í 63 milljónir tonna á sama tíma.

Í frétt á www.fishupdate.com segir að úr hverju tonni af fiskflökum verði að meðaltali eftir 40 kg af roði. Úr heimsaflanum verða því eftir mörg hundruð þúsund tonn af fiskroði sem mætti nýta. Atlantic Leather á Sauðárkróki er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur nýtt fiskroð til leðurframleiðslu. Framleiðslan þar hófst fyrir tuttugu árum. Nú hefur áhugi alþjóðlegra tískurisa vaknað á hráefninu. Atlantic Leather sér nú heimsfrægum framleiðendum, eins og Prada, Dior, Nike, Ferragamo og Puma, fyrir hráefni til framleiðslu á klæðum og skæðum.

Nike og fleiri merki tvinna saman litlum bútum af fiskleðri með hefðbundnu leðri í sínar framleiðsluvörur en aðrir nýta eingöngu fiskleður til framleiðslu á stærri flíkum. Verð á leðri úr fiskroði er svipað og verð á hefðbundnu kálfaleðri.