Alda öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip er íslenskt hugvit sem hefur þá sérstöðu að það hefur verið þróað í samvinnu við sjómenn og útgerðir frá upphafi. Fyrir jól fjárfesti Nýsköpunarsjóður ásamt níu íslenskum útgerðum, einni erlendri útgerð og sjálfseignarstofnuninni Ábyrgar fiskveiðar, í nýsköpunarfyrirtækinu Öldu Öryggi. Stefnt er að því að þessi tímamótalausn í öryggismálum sjómanna fari í sölu í byrjun febrúar og verði aðgengileg öllum útgerðum á Íslandi.

Öllu stýrt á einum stað

Öryggisstjórnunarkerfið stuðlar að því að allt sem snýr að öryggismálum sjómanna hjá útgerðum er nú stýrt á einum stað og auðveldar allt skipulag og framkvæmd öryggismála á sjó. Skipstjórnendur og stjórnendur útgerða hafa í rauntíma fulla yfirsýn gegnum stafrænt mælaborð hvernig þeim gengur að sinna öryggismálum sjómanna um borð í hverju skipi fyrir sig og hjá útgerðinni í heild sinni.

„Allar úttektir í öryggismálum, björgunaræfingar og nýliðaþjálfun um borð í skipum eru skráðar af sjómönnum sjálfum gegnum Öldu-appið. Þannig virkjum við alla sjómenn í öryggismálum um borð gegnum snjallsíma,“ segir Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri Öldunnar.

Einnig er til staðar verkefnalisti öryggismála sem sýnir þau atriði sem huga þarf að varðandi öryggismál í kjölfar úttekta og æfinga. Jafnframt eru áminningar ef huga þarf að endurmenntun, heilbrigðisvottorði eða öðrum réttindum sjómanna.

Samþætting við kerfi og stafræn þjálfunaráætlun

Frá upphafi var lagt upp með að hugbúnaður Öldunnar ætti auðvelt með tala við önnur hugbúnaðarkerfi, s.s mannauðs-, fræðslu og viðhaldskerfi.

„Samþætting við önnur kerfi er í raun grunnkrafa í allri hugbúnaðarþróun í dag,“ segir Gísli Níls.

„Í Öldunni verður hægt að setja upp rafræna þjálfunaráætlun fyrir fiskveiðiárið hjá hverju skipi þannig að kerfið aðstoði skipstjórnendur við að halda lögbundnar björgunaræfingar ásamt því að skipuleggja öræfingar sem taka um 15-20 mínútur að framkvæma en hugmyndin að þeim kom frá sjómönnum hjá Samherja og óhætt er að segja að öræfingarnar hafa algjörlega slegið í gegn hjá öllum sjómönn[1]um sem eru að nota Ölduna,“ segir Gísli Níls.

Samstarfssamningur við Vísi hf. var handsalaður strax sumarið 2022. F.v. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri Öldunnar og Ágúst Þór Ingólfsson, öryggisstjóri Vísis. MYND/PÁLL KETILSSON
Samstarfssamningur við Vísi hf. var handsalaður strax sumarið 2022. F.v. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri Öldunnar og Ágúst Þór Ingólfsson, öryggisstjóri Vísis. MYND/PÁLL KETILSSON

Útgerðir hafa trú á kerfinu

„Við erum gríðarlega stoltir af því að Nýsköpunarsjóður og svona margar íslenskar útgerðir hafi ákveðið að fjárfesta í þessari tímamótalausn í öryggismálum sjómanna á Íslandi. Með fjármögnuninni getum við nú loksins farið að vinna á daginn við þróun Öldunnar, ekki bara á kvöldin og um helgar,“ segir Gísli Níls.

„Fyrirtækið hefur nú þegar komið upp föstum höfuðstöðvum með aðstöðu frá og með 2. janúar og búið að ráða forritara og aðra starfsmenn til áframhaldandi þróunar á Öldunni. Við værum ekki staddir þar sem við erum í dag með öryggisstjórnunarkerfið nema fyrir þá hvatningu og fjárhagslegan stuðning sem við höfum fengið frá hagaðilum sjávarútvegsins þ.e. stéttarfélögum sjómanna, skipstjórnenda, Siglingaráði, Samgöngustofu, SFS, útgerðum og sjómönnum sem tóku þátt í notendaprófunum. Jafnframt ákvað tryggingafélagið TM að gerast okkar helsti styrktaraðili og erum við í Ölduteyminu öllum þessum aðilum mjög þakklátir, segir Gísli Níls.

Fjölmargar gerðir æfinga eru inni í bankanum.
Fjölmargar gerðir æfinga eru inni í bankanum.

Áframhaldandi þróun og gervigreind

Árið 2023 var mjög stórt hjá Öldunni en tæplega 30 skip og 700 sjómenn hjá 9 útgerðum tóku þátt í notendaprófunum á öryggisstjórnunarkerfinu.

„Óhætt er að segja að viðtökurnar hjá sjómönnum og útgerðum hafi verið alveg frábærar sem við skrifum á góðan undirbúning okkar í þróunarferlinu á kerfinu sem hófst með notendaviðtölum sumarið 2022. Í heildina voru voru gerðar um 1.800 björgunaræfingar, nýliðaþjálfanir og öryggisúttektir í notendaprófunum,“ segir Gísli Níls.

Haldið verður áfram að þróa Ölduna í samvinnu við sjómenn og útgerðir og er Ölduteymið nú að horfa til þess hvernig unnt verði að nýta gervigreind og aðra spennandi tækni til að efla öryggismálin enn frekar til sjós