Dýrar landtengingar fyrir stærri skip í Sundahöfn á dagskrá innan fárra ára. Ráðist verður í mikla uppbyggingu á Grundartanga og Akranesi. Stefnt að vetnisframleiðslu á Grundartanga með áfyllingarstöð fyrir skip.
Að sögn Magnúsar Þórs Ásmundssonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna, eru stór og mikil fjárfestingarár framundan hjá höfninni.
Á þessu ári nema fjárfestingar Faxaflóahafna um 650 milljónir, en á næsta ári sé gert ráð fyrir 1,9 milljarða fjárfestingu og á árunum 2023 til 2025 er gert ráð fyrir samtals 9,5 milljarða fjárfestingu. Alls eru þetta um 12 milljarðar á ríflega hálfum áratug.
„Við þurfum að vera á tánum og fylgjast með ef við ætlum að vera í fremstu röð,“ sagði Magnús Þór á
málþingi sem Faxaflóahafnir
efndu til fyrir skemmstu. Hann sagði aðstæður stöðugt vera að breytast og ekkert lát er á tækniþróuninni. Höfnin þurfi að bregðast við.
Dýrar landtengingar
Verulegur hluti þessara fjárfestinga fer í orkuskipti og landtengingar skipa fyrir rafmagn. Nú þegar eru komnar landtengingar fyrir minni báta, fiskiskip og varðskip í Gömlu höfninni. Landtengingar eru síðan á dagskrá í Sundahöfn, fyrir bæði flutningaskip og stærri farþegaskip. Magnús segir þær líklega verða að veruleika eftir tvö til þrjú ár, en þær eru mjög dýrar í framkvæmd. Þá er stefnt að rafvæðingu krana á hafnarsvæðunum, auk þess sem verið er að skipta bílaflota Faxaflóahafna út fyrir rafmagns- og metanbíla.
Til viðbótar er mikil uppbygging fyrirhuguð á Akranesi og þá sagði Magnús mikinn áhuga vera fyrir framleiðslu á vetni og vetnisafurðum á Grundartanga. Þar sé framtíðartækifæri fyrir áfyllingarstöð skipa, bæði fyrir fiskiskipaflotann og önnur skip, íslensk sem erlend.
- Magnús Þór Ásmundsson hafnarstjóri.
„Það eru mjög góðir innviðir á Grundartanga, orkutengingar, góðir vegir, djúp og góð höfn,“ sagði Magnús.
Þá sagði Magnús að Faxaflóahafnir stefni óhikað í þá átt að verða það sem kallað hefur verið „snjallar hafnir“, sem þýðir að öll starfsemin verði ekki bara í raunheimum heldur speglist hún líka í stafrænum heimi á netinu.
Hafnir séu ekki aðeins mikilvægur hlekkur í birgðakeðjunni heldur þurfi þær nú orðið einnig að vera hlekkur í upplýsingakeðjunni. Bókanir séu allar að færast á netið og upplýsingaflæðið meira og minna orðið stafrænt.
Covid-lægð
Heimsfaraldurinn hefur óneitanlega haft veruleg áhrif á starfsemi Faxaflóahafna. Skipakomum fækkaði mjög og munar þar verulega um stóru skemmtiferðaskipin sem létu varla sjá sig árið 2020.
Skipakomum hefur fjölgað aftur á þessu ári, en að sama skapi hafa farþegaskipin reyndar verið minni og farþegarnir með hverju skipi þar með færri en áður.
- Landtengingar eru á dagskrá í Sundahöfn, fyrir bæði flutningaskip og stærri farþegaskip. Mynd/Kristinn Magnússon
Minni farþegaskipin sagði Magnús yfirleitt vera svonefnd leiðangursskip, en það eru skip sem taka við farþegum sem koma fljúgandi til landsins og fara síðan í hringsiglingu umhverfis landið eða til Grænlands eða annað. Síðan koma þessir farþegar aftur frá borði og fljúga heim.
„Þetta eru verðmætir farþegar,“ sagði Magnús. Þeir séu verðmætari í raun heldur en þeir sem koma með stóru farþegaskipunum. Þeir staldra lengur við, gista og fara á veitingastaði.
Spyrnt frá botni
Í ár verða skipakomurnar um 70, sem Magnús segir gott miðað við aðstæður. Framundan er aukning, búið er að bóka nærri 190 skipakomur á næsta ári og útlitið gott fyrir næstu ár.
„Við erum klárlega að spyrna okkur frá botninum,“ sagði Magnús.
Almennt segir hann skipin þó hafa verið að stækka undanfarin ár, bæði farþegaskipin og flutningaskipin.
Samdráttur hefur einnig verið í lönduðum afla, einkum á Akranesi enda hefur Brim að mestu flutt starfsemi sína þaðan.
„Þó sjáum við svolítið af uppsjávarfiski á þessu ári og ég bind vonir við að árið 2022 verði mun betra, þar sem spáin fyrir loðnuvertíð er býsna góð.“