Norska nótaskipið Talbor er komið úr fyrsta túr á tilraunaveiðum á snjókrabba í Barentshafi og fékk 26 tonn á átta dögum í eitt þúsund gildrur. Túrinn gaf um 9 milljónir íslenskra króna í aflaverðmæti sem vegur ekki þungt í bókhaldi skipsins enda ekki til þess ætlast því útgerðin er rétt að byrja að þreifa sig áfram, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Asískar gildrur reyndust best í veiðiferðinni en einnig voru reyndar stórar kanadískar gildrur. Ætlunin er að gera veiðitilraunir í einn og hálfan til tvo mánuði að þessu sinni og meta árangurinn að því loknu. Fyrir snjókrabbann fást að meðaltali um 360 íslenskar krónur á kílóið. Aflinn er varðveittur í kælitönkum og færður lifandi í land.

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum hafa rannsóknir rússneskra vísindamanna leitt í ljós að útbreiðsla snjókrabba í Barentshafi hefur aukist verulega í seinni tíð og er tíu sinnum meira af snjókrabba en kóngakrabba í hafinu.

Óvíst er hins vegar hvernig snjókrabbinn hefur borist í Barentshafið, líklega annað hvort með kjölvatni skipa eða við náttúrulega útbreiðslu. Snjókrabbinn er algengur annars vegar í norðvesturhluta Atlantshafs, svo sem við Kanada og Grænland, og hins vegar í norðanverðu Kyrrahafi. Á þessum svæðum er hann verðmætur nytjastofn.