Alls eru settar fram 60 tillögur sem varða ýmsar hliðar sjávarútvegs, allt frá því að hækka auðlindagjald og leggja niður félagslega 5,3% kerfið yfir í að bæta upplýsingagjöf og auka gagnsæi í greininni.

Starfshóparnir eru hálfnaðir með vinnu sína og hafa fundað með fjölda fólks, sérfræðingum, hagaðilum og almenningi, aflað gagna og lagt fram bæði tilgátur og rannsóknaspurningar.

Sumar tillögurnar þarf að útfæra frekar en aðrar eru lagðar fram til að skapa umræðu og kalla fram viðbrögð.

Sem dæmi snýst ein tillagan um að hækka veiðigjald og einfalda útreikning þess, en jafnframt eru nefndar hugmyndir um að taka upp fyrningarleið sem kæmi á festu um varanleika hlutdeildanna um leið og umráðaréttur þjóðarinnar yfir auðlindinni sé skýrt skilgreindur.

Ein tillagan snýst um að setja á fót sjóði þar sem orkuskipti í sjávarútvegi eru samfjármögnuð, önnur um að tekjum af auðlindagjaldi verði safnað í sérstakan auðlindasjóð sem varið verði í verkefni sem tengjast byggðaþróun.

Lagt er til að regluverk um fiskveiðistjórnun og fiskveiðar verði einfaldað og samræmt í ein heildarlög, meðal annars til að eyða réttaróvissu.

„Löggjöf á sviði fiskveiðistjórnunar er mörg hver komin til ára sinna og eru elstu lögin frá 1914,“ segir í tillöguskjalinu sem birt er á vef Auðlindarinnar okkar. „Í dag er efnisreglum um stjórn fiskveiða skipt á milli nokkurra lagabálka. Slíkt fyrirkomulag getur valdið réttaróvissu og hefur Umboðsmaður Alþingis m.a. bent á það í álitum sínum. Núgildandi löggjöf er því óaðgengileg og torveld í notkun fyrir stjórnvöld og borgara. Þá hafa á síðustu áratugum verið gerðar fjölmargar lagabreytingar og „plástrað“ við núgildandi löggjöf.“